144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

endurskoðun laga nr. 9/2014.

[11:00]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil samt líta svo á að hv. þingmaður sé einmitt að hvetja okkur til góðra verka. Ég leit svo á að þetta endurskoðunarákvæði væri einmitt hugsað með það fyrir augum hvort rétt væri að hafa þetta ákvæði og þessi lög enn í gildi. Niðurstaða okkar, eftir að hafa farið yfir reynsluna, er þessi: Já, við eigum áfram að vera með þetta úrræði til staðar en nauðsynlegt er að fara yfir þau skilyrði sem eru til þess að fá greiðslukostnað vegna gjaldþrotaskipta og þau séu líka í samræmi við breytingar varðandi lög um greiðsluaðlögun. Það hefur sýnt sig að synjunarhlutfallið hefur ekki verið jafn hátt varðandi greiðsluaðlögunina, en það er að mínu mati samt sem áður of hátt vegna þess að könnun umboðsmanns skuldara sýnir einfaldlega að fólk hefur fengið synjun, ekki hvað síst á grundvelli þess að það gat ekki lagt til hliðar vegna þess að það dróst allt of lengi að vinna úr þeirra málum, og það á að vera til svigrúm til þess að koma til móts við þessa hópa. (Forseti hringir.) Þingið sagði hins vegar að það ætti að vera samræmi á milli þessara skilyrða og við (Forseti hringir.) munum bregðast við því og þess sem kom fram í frumvarpinu.