144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að bera upp við þingmanninn þær áhyggjur sem ég hef af þessum frumvörpum og heyra viðbrögð hennar við þeim. Ég byrja í fyrra andsvari á fyrri þættinum sem er að þeim mun víðari sem ramminn er fyrir þrotabúin, þeim mun þrengri verður kosturinn fyrir landsmenn. Það er mjög skýrt í frumvarpinu um stöðugleikaskatt að þetta sé 39% skattur en ef allar undanþágur eru nýttar dettur hann niður í 32%. Við vitum hvað liggur undir skattstofninum þannig að þetta er allt saman mjög skýrt. Ef menn fara aftur á móti í nauðasamninga þurfa menn samkvæmt síðara frumvarpinu að fá vottorð frá Seðlabankanum um að þeir uppfylli stöðugleika. Þá komum við inn á það að markmið stöðugleikaskattsfrumvarpsins er efnahagslegur stöðugleiki og almannahagur. Hver er þessi efnahagslegi stöðugleiki? Hann hefur nefnilega ekki verið skilgreindur. Veit þingmaðurinn hvað það er? Þetta þýðir að við þurfum að skipta krónum í gjaldeyri hægt og rólega til að þeir sem eru með peninga í slitabúunum í dag komist út. Ef það gerist of hratt verður óstöðugleiki, en efnahagslegur stöðugleiki er mjög breitt hugtak. Það getur verið mjög þröngur stakkur en samt sem áður stöðugleiki fyrir landsmenn en það getur líka verið víðari stakkur. Er þingmaðurinn ekki sammála mér í því að við verðum að hafa alveg skýrt uppi á borðum hvað það er? Ég held að Samtök atvinnulífsins hafi talað um að 20% væru efnahagslegur stöðugleiki sem er gott fyrirkomulag. Einkaneyslan er 24% sem hefur verið tiltölulega gott eða sæmilegt fyrir landsmenn og samneyslan er að lágmarki 53%. Ég veit ekki alveg með þessar tölur en þetta þýðir (Forseti hringir.) að bara 3% eru eftir til að greiða vexti og borga upp lánin.