144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa spurningu. Mér finnst hún góð að því leytinu til að mér finnst grunnspurning hv. þingmanns áhugaverð, þ.e. hvað er stöðugleiki? Þetta hugtak er mjög mikið notað í pólitískri umræðu, hugtak sem hefur yfir sér mjög jákvæðan blæ í hugum almennings í landinu, en svo getum við velt fyrir okkur hvað stöðugleikinn er. Ég hef sjálf spurt þeirrar spurningar: Er stöðugleikinn til að mynda um að halda ákveðinni misskiptingu í launum í landinu? Er það stöðugleiki að viðhalda ákveðinni misskiptingu í launum í landinu? Svo dæmi sé tekið vil ég auka jöfnuð, ekki bara í tekjudreifingu heldur líka í því hvernig auðurinn skiptist á milli landsmanna, og þá vil ég ekkert viðhalda þeim stöðugleika sem er núna sem byggist á því að auðurinn hefur safnast á æ færri hendur, mikill meiri hluti auðsins. Mér finnst þessi spurning góð.

Þegar ég ræði um stöðugleika í minni ræðu er ég að vitna til þess þrýstings sem eignirnar innan haftanna skapa á gengi gjaldmiðilsins og þar með á kjör almennings í landinu. Það er auðvitað meginhugmyndafræðin. En mér finnst mikilvægt, eins og hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni, að víðtækari áhrif og skilgreining á stöðugleika sé rædd í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þar þarf auðvitað að fara yfir hverjar forsendurnar eru nákvæmlega á bak við framhaldið. Það er það sem mér finnst líka mikilvægt að gera, um leið og við ræðum þessar aðgerðir hér þurfum við að sjá fyrir nákvæmlega framhaldið af þeim aðgerðum og hvert við stefnum í þeim málum. Hv. þingmaður tekur líka fram hlutfall samneyslu, einkaneyslu og annað og ég spyr: Er það nákvæmlega eitthvað sem við ætlum að halda óbreyttu? Ég hef lýst áhyggjum af hlutfalli samneyslunnar sem hefur verið niður á við í okkar samfélagi, niður á við til að mynda miðað við annars staðar á Norðurlöndum, (Forseti hringir.) og það er ekki sú þróun sem ég vil sjá í framhaldinu.