144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðarnefnda gerði hv. þm. Jón Þór Ólafsson einmitt að umtalsefni hér í gær, freistnivandann eins og ég held að hv. þingmaður hafi kallað það, þ.e. að þegar peningarnir séu komnir á hlaupareikning, mér þykir vænt um að hann noti þetta orð sem ég hef ekki heyrt lengi, sé freistingin mikil fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að leggja til notkun sem er góð og göfug í sjálfu sér. Eins og ég kom að í ræðu minni finnst mér að það þurfi að fara með þessa fjármuni út frá þeim markmiðum sem við setjum. Við erum að setja þau markmið með frumvörpunum, ekki satt, að hér eigi að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Þar af leiðandi hlýtur notkun þessara fjármuna að miðast við það, þ.e. að þá sé ekki bara hægt að útdeila þeim í ýmis góð verkefni nema hugsanlega með einhverjum undanþágum. Hér hafa menn nefnt einhver sérstök verkefni sem gætu þar átt inni, en meginmarkmiðið hlýtur samt að vera að viðhalda þeim stöðugleika að tryggja að kjör almennings skerðist ekki við þetta útflæði. Ég tek undir með hv. þingmanni, þar þurfum við (Forseti hringir.) sérstaklega að hafa varann á.