144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að reyna að segja við hv. þingmann í mínu fyrra svari er að það má kalla hlutina ýmsum nöfnum en fyrir mér liggja staðreyndirnar alveg á borðinu. Mér þótti þess vegna hálfkúnstugt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra í gær og gerði athugasemd við það þegar hann kom hér upp með sína söguskoðun þar sem hann sneiddi vandlega hjá öllu því sem síðasta ríkisstjórn hefði gert í þessu máli af því að honum er mjög umhugað um að þakkir eigi bara hann og hans lið skildar, svo það sé sagt. Það held ég að segi meira um hæstv. forsætisráðherra en málið allt. Hér liggur fyrir að þetta mál er ein samfella. Ég tek undir með hv. þingmanni sem hér talaði að hér hefur verið unnið að málinu af heilindum og samfellu allan tímann. Eigum við ekki bara að vera þakklát fyrir það?

Ég tek aftur undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í gær, allar þrjár ríkisstjórnirnar sem hafa komið að þessu máli eiga hrós skilið. Eigum við ekki bara að fallast á það þó að sumir eigi erfitt með það?