144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Öðruvísi mér áður brá, að heyra formann Vinstri grænna mæra hagvöxtinn sem undirrót bættra lífskjara. Það veit á gott, að menn vilji hvetja til aukins hagvaxtar en sumir af flokksbræðrum hv. þingmanns hafa einmitt farið í hina áttina og sagt hagvöxtinn og kröfu um viðvarandi hagvöxt vera eina helstu ógn við mannkynið. En sé það svo að það sé sem sagt minni hagvöxtur sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af þá er hægt að gleðja hana með því að um þessar mundir er því spáð að við séum að lifa eitt lengsta samfellda skeið hagvaxtar seinni tíma. Það ætti að gleðja hv. þingmann.

Varðandi ójöfnuðinn, hann er sannarlega ekki vandamál á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum samanburði, en menn vilja gera betur. Eitt er það sem ég held að við ættum að hafa í huga, það að til dæmis á sviðum eins og í húsnæðismálum sýna alþjóðlegar rannsóknir, menn eru að nefna þær hér til sögunnar, að séreignarstefnan leiði til meiri jöfnuðar en húsnæðisstefna sem byggir á stórauknu félagslegu húsnæði og leigumarkaði.