144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[12:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég hef skilið þau tvö orð sem hv. þingmaður las upp, efnahagslegur stöðugleiki, sem er að finna í 1. gr. þannig að markmiðið sé að tryggja að þær aðgerðir sem við erum að fara að ráðast í veiki ekki grunn gengisins þannig að það gæti leitt til einhvers konar hruns eða einhvers konar breytinga á högum almennings vegna verðlagsbreytinga á neysluvörum og líka náttúrlega á húsnæðislánum sem hefði mjög slæmar afleiðingar. Þess vegna minnist ég þess að ég held að við hv. þingmaður höfum einhvern tímann fyrr rætt hér saman yfir þennan stól um þann möguleika að kippa vísitölunni úr sambandi meðan þetta yrði gert. Ég var að minnsta kosti þeirrar skoðunar að það væri eitt af því sem ætti að skoða.

Spurningunni um með hvaða hætti aðkoma þingsins verði get ég ekki svarað. Það hefur ekki komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra svo ég hafi heyrt og alls ekki hæstv. forsætisráðherra. Hins vegar tel ég að þegar við ljúkum þessari umræðu í dag sé fyrir höndum mikil vinna þingsins í viðeigandi fagnefndum sem verður þá væntanlega einungis efnahags- og viðskiptanefnd þótt ég telji að fjárlaganefnd eigi líka að koma að svona máli, það er svo viðamikið, og þar fara menn með sín röntgenaugu í gegnum greinargerðirnar og spyrja út úr fyrir hönd okkar þingmanna sem ekki sitjum þar. Ég hygg að þingið geti í gegnum tillögur sem koma frá efnahags- og viðskiptanefnd þegar við ræðum þetta hér síðar í sumar við 2. umr. haft nokkuð um það að segja. Ef hv. þingmaður telur til dæmis nauðsynlegt að Alþingi hafi nánari aðkomu að málinu á einhverjum síðari stigum, t.d. þurfi að staðfesta einhverjar ákvarðanir sem Seðlabankinn í samvinnu framkvæmdarvaldið hefur tekið, tel ég það koma vel til greina að þingið samþykki slíkt ef hv. þingmaður mundi færa sterk rök fyrir því.