144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[12:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er meðal þess sem kjósendur þurfa að velta fyrir sér þegar kemur að næstu kosningum og sem betur fer styttist nú í þær. Þetta eru sjónarmið sem þurfa að vera uppi. Og menn þurfa að hafa það vel í huga af hverju kröfuhafarnir umgangast eignir sínar hérna eins og matador-peninga. Þeir segja í rauninni: Þið megi eiga þetta hérna. Þetta verða um það bil 400 milljarðar sem þeir líta bara á sem matador-peninga, þetta eru bara gervieignir, þetta verður bara skilið eftir. Það ætti að verða einhverjum umhugsunarefni.

Ég er sannfærður um að með evru mundi okkur takast að örva hér samkeppni. Ég er sannfærður um að okkur mundi takast með því að auka útflutningstekjur okkar, fjölga stoðum undir efnahagslífi þjóðarinnar, hafa fjölbreyttari atvinnurekstur. Það er bara þannig sem við getum byggt upp til framtíðar.

Sem betur fer hafa nýir atvinnuþættir komið mjög sterkir inn og fjölgað þessum stoðum fyrir okkur. Það er gríðarlega jákvætt og það er þróun sem við þurfum auðvitað að reyna eftir fremsta megni að ýta undir en ekki að draga úr. Þess vegna verður það ekki nægilega oft sagt að það sem hér er á ferðinni er tímabundin skammtalækning. Hún er jákvæð og hún er vel heppnuð, en hún er ekki lausn til framtíðar. Það sem við verðum að gera til þess að koma í veg fyrir — og ég er ekki sammála hv. þingmanni þar sem hún segir að við stefnum mögulega í sama horfið innan fárra áratuga, ég gæti vel trúað að það gæti bara gerst á þessum áratug, á næstu tíu árum eða svo. Menn verða því að horfa til framtíðar og búa til kerfi og búa við kerfi sem er stöðugt. Það er lykilatriði í þessum efnum.