144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[13:30]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér í sameiningu tvö frumvörp, frumvarp til laga um stöðugleikaskatt og frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, sem kynnt hafa verið bæði ítarlega í fjölmiðlum og talsverð umræða hefur farið fram um málið á þingi þótt við séum komin yfir á seinni kantinn í 1. umr. um málið. Ég vek athygli á því að bæði þessi þingmál eiga eftir að fara til ítarlegrar skoðunar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og er það vel.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst alltaf óþægileg tilfinning þegar alþingismenn eru tilbúnir að tjá sig um stór frumvörp af þessu tagi áður en öll kurl eru komin til grafar. Menn komu út af kynningarfundi ríkisstjórnarinnar glóandi af hrifningu, steðjuðu í ræðustól og lýstu yfir á aðdáun á afurð undangenginna mánaða. Þetta hefur ekki fæðst án langs meðgöngutíma en tilfinning mín var sú að menn hefðu ekki kynnt sér málið nægilega vel til að innstæða væri fyrir öllum þeim fullyrðingum sem fram komu. Ég hygg þó að ánægja manna hafi að nokkru leyti snúist um það sem menn töldu vera aðferðafræðina við að nálgast niðurstöðu, enda hefur komið fram í ræðum manna hér um málið að talsvert hefur verið lagt upp úr með það að skilgreina nálgunina við viðfangsefnið. Margir í stjórnarandstöðu og ýmsir í stjórnarmeirihluta hafa fagnað því að þetta sé afurð samræðu og samninga en í stjórnarliðinu eru ýmsir sem hafa vísað því frá og talað um samtal, sagt að þetta séu ekki samningaviðræður. Allt þetta getur skipt nokkru máli. Það skiptir máli hvert uppleggið er þegar reynt er að komast að niðurstöðu af þessu tagi.

Ég held að það sem gerst hefur hafi verið einhvers konar blanda af þessu en uppleggið var ekki samningar. Uppleggið var ekki að ganga til samninga við kröfuhafa heldur að það væru stjórnvöld sem settu skilyrðin, sköpuðu skorðurnar og ég ætla að koma að því aðeins síðar.

Menn hafa líka farið yfir sögu málsins, látið hugann skauta aftur til ársins 2008, rætt einnig töluvert um aðdraganda hrunsins og litið síðan til þeirra ráðstafana sem gripið var til í kjölfar hrunsins. Þar hafa ekki verið uppi miklar deilur en ég vil bæta einu inn í þetta upplýsingasafn sögunnar, ég hef dundað mér við að fletta þessu upp, og það er framlag Lilju Mósesdóttur sem ræddi tvennt strax haustið 2008. Hún ræddi þá útgönguskatt sem og sérstakt gengi fyrir aflandskrónur. Hún gerði þetta líka ítrekað á árinu 2009 áður en nokkur annar fór að viðra slíkt af nokkurri alvöru, enda var það þannig að leiðsögumaður okkar sem þröngvað var upp á þjóðina á sínum tíma, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, vildi ekki sjá þessar lausnir, a.m.k. ekki tvígengi. Hann vildi ekki fjölgengi á þeim tíma þó að mér sé sagt að þegar grannt er skoðað í helgiritum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins megi finna einhverjar tilvísanir í tvígengi, að það eigi að vera hægt, en hann vildi það ekki á þessum tíma. Það kom ítrekað fram. Þetta gagnrýndi Lilja Mósesdóttir og talaði bæði fyrir sérstöku gengi fyrir aflandskrónur og síðan útgönguskatti. Þetta var haustið 2008 og aftur og ítrekað á árinu 2009 en síðan er það miklu seinna sem Seðlabankinn setur fram tillögur sínar. Það er í marsmánuði 2011 sem þær eru mótaðar í þetta form.

Menn tala um að við séum að fást við fordæmalausar aðstæður og það krefjist fordæmalausra lausna. Þá er spurningin um að hafa innan borðs fólk sem getur hugsað út fyrir rammann og það gerði Lilja Mósesdóttir. Hún var hædd og spottuð þegar hún kom fyrst fram með þessar tillögur sínar en síðan dró úr þeirri gagnrýni og vilja nú margir Lilju kveðið hafa.

Smám saman fóru menn að átta sig á því hvers eðlis kröfurnar í slitabúin voru vegna þess að upphaflegir eigendur að þessum kröfum eru löngu horfnir frá borði, kannski er tæplega 1/10 hluti þeirra eftir. Annars keyptu nýir eigendur þessar kröfur að uppistöðu til með miklum afslætti, frá 70% upp í 96%. Það var talað um umtalsverða sölu á þessum eignum og kaup þar sem keypt var fyrir 4% að nafnvirði. Við höfum heyrt það í þessari umræðu þegar menn hneigja sig og beygja fyrir þessum kröfueigendum að við þurfum að sýna þeim gríðarlega virðingu, það séu virðulegir fjárfestar sem þurfi að koma fram við af fullri virðingu. Ég ber ekki þá virðingu í brjósti mínu. Ég vil miklu frekar semja við Öryrkjabandalagið um kjör öryrkja á Íslandi. Ég vil semja við fólkið sem er í verkfalli núna á Landspítalanum. Það á kröfu á slíkri virðingu. En þetta eru hrægammafjárfestar sem réttilega hafa verið kallaðir svo, ekki bara hér á landi, það er talað um „vulture capital“, hrægammafjármagn, sem sveimar alltaf yfir þar sem eru vandræði og erfiðleikar til að reyna að hremma eitthvað undir formúlunni vogun vinnur, vogun tapar. Það var sagt frá því að í marsmánuði hefði einn slíkur komið fljúgandi hingað inn, George Soros sem mér finnst oft tala af miklu viti um samfélagsmál. Hann hefur gagnrýnt óheftan kapítalisma þó að hann hafi gert sér gott úr honum. Hann varð frægur að endemum þegar hann felldi breska pundið árið 1992 með spákaupmennsku og hagnaðist gríðarlega á því. Þessi maður keypti í marsmánuði samkvæmt upplýsingum í íslenskum fjölmiðlum af Burlington Investment hluti í kröfum til Glitnis að nafnvirði 44 milljarða kr., 44 þús. millj. kr. Hann er sagður hafa keypt þetta fyrir 27–29% af nafnvirði sem eru þá um 13 milljarðar. Vonin var þá sú að ganga út með 30 milljarða í hagnað. Ef það hefði verið lagður — yrði lagður, við erum ekki búin að þessu — 70% skattur hefði George Soros engu að síður gengið út með nokkur hundruð milljónir upp á vasann. Það hefði munað um annað eins í sjóði Landspítalans svo dæmi sé tekið. Með tæpum 40% skatti gengur George Soros út með 12–13 milljarða í hagnað.

Einstaklingur sem keypti á 4% og seldi George Soros eða álíka nótum á 27–29% af nafnvirði og þyrfti að þola 70% skatt gengi út með 100% hagnað. Þetta er sem sagt mannskapurinn sem menn hafa rætt hér í allan gærdag og í dag um að þurfa að hneigja sig sérstaklega fyrir og fara um alveg sérlega varfærnum höndum. Mér finnst það ekki. Það á að setja þessu fólki stólinn fyrir dyrnar, þetta eru spákaupmenn, þetta eru hrægammasjóðir og hrægammar sem reyna í krafti spákaupmennsku að hagnast á samfélögum sem eru í erfiðleikum. Þess vegna er alveg rétt aðferðafræði að ákveða hvað það er sem við ætlum síðan að gera. Okkur var sagt í upphafi vikunnar þegar þetta var kynnt að grunnforsendan væri sú að það ætti að setja tæplega 40% stöðugleikaskatt á þessar eignir, 39%. Síðan væri hægt að fara aðra leið í nauðasamningum en ná ígildi þessara 39%. Ég vænti þess að í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar og eftir að málið kemur aftur til þingsins verði okkur sýnt fram á það ígildi þessarar aðferðar að við séum að fá það sama eða svipað út úr þessu. Það er nokkuð sem við þurfum að hlusta eftir. Það er svo flókin aðferðafræði þarna að baki að það er ekki fyrir nokkurn mann að skilja það nema hann sé innvígður í vinnuna að baki þessu frumvarpi. Auðvitað var alltaf vitað að það yrði gríðarleg andstaða við að láta þessi fyrirtæki fara í gjaldþrot vegna þess að hagsmunirnir eru svo gígantískir frá til dæmis þeim sem sitja í slitastjórnum og fá bónusana upp í sínar hendur. Allir þeir verkamenn sem koma að þessum málum í aldingarði mammons sjá fram á gríðarlegan hagnað með því að þetta fari þessa leið. Þess vegna er talað með þessum hætti um það og það er klappað fyrir þessu á þingi af hverjum þingmanninum á fætur öðrum. Ég hef ekki sannfærst um að það sé betra fyrir almenning, fyrir samfélagið að fara þessa leið en að þessi skattur sé einfaldlega settur á og gjaldþrotaleiðin farin. Ég er ekki sannfærður um það. Ég kannski skil það ekki nógu vel en ég leyfi mér að efast um að það geri allir í þessum sal. Einhverjir kunna að gera það en ég geri það ekki. Þetta eru hlutir sem við þurfum að fá rækilega skoðaða.

Mér finnst svolítið undarlegt hve lítil umræða hefur orðið um þessa prósentu. Hún er þarna fest, 39%. Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna hana. Nokkrir félagar í Indefence-hópnum skrifuðu opinberlega fyrir nokkrum vikum, ætli það hafi ekki verið í febrúar eða mars, þar sem þeir sögðust vona að það yrði farið hærra en 40%. Þeir nefndu 60–70%. Lilja Mósesdóttir talaði um mun hærri prósentu. Sjálfur talaði ég um 70% en menn staðnæmast í þessari prósentu, 39%, og gríðarlegur fögnuður er síðan hjá kröfuhöfunum öllum og slitastjórnum sem sjá fram á að þeir verði ekki af bónusunum sínum af því að þessi leið er farin en ekki önnur. Mér finnst að það þurfi að setja á borðið fyrir okkur miklu traustari og skýrari upplýsingar um þetta mál. Ég vil þó halda því til haga að það hefur komið fram gagnrýni á það hve lág þessi prósenta er og ég leyfi mér að taka undir þá gagnrýni.

Síðan vil ég víkja að öðrum þáttum. Það væri ágætt ef það yrði reynt að þagga niður í þessari umræðu í hliðarsal.

(Forseti (SJS): Forseti biður menn um að gefa gott hljóð.)

Það er bara einn fundur hér í gangi.

Það sem vekur óhug er að við séum komin aftur inn í töku tvö. Seðlabankinn er byrjaður að hækka vexti að nýju, hækkaði um 0,5%, það var tilkynnt í gær, og fjármálaráðherrann lýsir því yfir að nú þurfi að ráðast í skattalækkanir. Þetta er bara nákvæmlega það sem gerðist hér á sínum tíma og ég segi: Leiðin til að draga úr þenslu er að beita sterkasta vopninu sem við höfum gegn henni og það er skynsemi. Það á að beina því til almennings og fyrirtækja að fara fram af skynsemi. Því á ekki síst að beina til stjórnvalda. Þegar fjármálaráðherra landsins gengur fram fyrir skjöldu og fer að kynda undir þenslubáli eins og hann gerir með því að segja að hagur manna verði rýmri vegna skattalækkana er hann að gefa í skyn að fólki sé óhætt að fara að ráðast í fjárfestingar, það muni hafa meira milli handa til að greiða af lánum sínum. Þetta finnst mér verulegt áhyggjuefni.

Hinn þátturinn sem hefur verið nokkuð í umræðunni og við þurfum að ræða í samhengi við þessar ráðstafanir er umræðan um bankana. Eins og ég skil þetta er það orðinn hagur íslenska ríkisins að einkabankarnir tveir verði seldir úr landi og þá á sem hæstum prís vegna þess að þegar komið er yfir tiltekið mark, og þá aðeins, fer ríkið að hagnast á þessari sölu sem í sjálfu sér er að sjálfsögðu mjög gott. En þá fer maður að hugsa: Hvað svo? Hvert verður framhaldið? Til hvers kaupa menn banka? Menn kaupa banka til að hafa af þeim hagnað. Við þurfum að hugsa þetta langt fram í tímann og þá kemur náttúrlega í ljós að kröfuhafarnir eru farnir að stilla upp þeim óskum sínum eða skilyrðum sem þeir vilja helst hafa, að bankarnir verði ekki seldir nema með því fororði að þeir gangi til erlendra aðila sem haldi eignarhaldi sínu næstu fimm ár sem er alveg skiljanlegt til að verðið verði sem hæst, að það megi búast við ákveðnum stöðugleika í þessu.

Þá er einn banki eftir og það er Landsbankinn. Ég ætla að leyfa mér að taka mjög einarðlega undir með formanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, þegar hann talar fyrir því að Landsbankinn verði að öllu leyti í samfélagslegri eign og ekki nóg með það, heldur rekinn á samfélagslega ábyrgan hátt, að hann keppi við aðra þætti í fjármálakerfinu með lágum vöxtum. En er það gott? Er hægt að reka banka á arðbæran hátt út úr umhverfinu að þessu leyti? Já, það er hægt. Við skulum aldrei gleyma því að ríkisbankarnir — ég er að tala um ríkisbankana frá fyrri tíð, Búnaðarbankann og Landsbankann — voru aldrei reknir á kostnað samfélagsins. Einu sinni þurfti Landsbankinn tímabundið á ríkisaðstoð að halda. Það var í byrjun tíunda áratugarins og það var allt greitt til baka. Síðan var þetta eignarhald sem hafði reynst þjóðinni farsælt fært í einkahendur og við vitum hvernig fór. Nú skulum við láta þetta verða okkur að kenningu. Við eigum að halda Landsbankanum hjá okkur sjálfum, ekki hafa hann sem braskbanka heldur viðskiptabanka fyrir fólkið í landinu sem reyni að halda vöxtum niðri og reka hér fjármálakerfi af ábyrgð. Sú krafa rís um allan heim að við reynum að slíta okkur úr klóm og illu faðmlagi við fjármálaöflin. Í þessum anda hafa komið upp hugmyndir, t.d. í ýmsum sveitarfélögum í Bandaríkjunum, um að stofnaðir verði bankar til að annast veltuna í sveitarfélaginu og þjónustuna við fólkið sem byggir þessar borgir. Hvers vegna ekki að fara út á þessa braut? Við sjáum hvert hitt hefur leitt okkur. Þegar ég heyrði hv. þm. Frosta Sigurjónsson tala á þessum nótum gladdi það mjög hjarta mitt og mig langar til að nota þessa ræðu til að taka vel og ákveðið undir með honum hvað þetta snertir.

Ég held að það hafi skipt máli — og skipti enn máli, við erum ekki búin að ganga frá þessum málum — að kröfuhafarnir viti að íslensk stjórnvöld eru tilbúin að ganga fram af mikilli ákveðni gagnvart þeim. Það er ástæðan fyrir því að gengi þessara bréfa og þessara eigna var mjög lágt. Þegar þessi trú dofnaði fóru menn að voga sér meira eins og Soros núna í mars þegar hann réðst í þau kaup sem ég var að fjalla um hér áðan.

Hæstv. forseti. Mig langaði til að víkja að þessum sögulegu þáttum, að þessari umræðu sem hófst haustið 2008 að frumkvæði þáverandi hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Hún uppskar í fyrstu mikið háð og spé en nú vilja allir Lilju kveðið hafa. Það var á þessum tíma sem okkar andlegi leiðtogi í lífinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, gúteraði ekki þær tillögur sem hún setti fram, sérstaklega varðandi tvígengið eða fjölgengið, en síðan fóru þessar hugmyndir að ryðja sér til rúms.

Ég vil gjarnan vera með í þeim kór sem fagnar því að við skulum vera að nálgast lausn í þessu máli en vil minna efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, sem og þingið allt og alla þingmenn, á að umfjöllun okkar um þessi mál er ekki lokið. Mjög mörgum spurningum er ósvarað í þessu. Er það til dæmis rétt eða er það ekki rétt, eins og ég hef áður vikið að, að stöðugleikaframlagið sé ígildi stöðugleikaskatts upp á 39%? Nei, það er alls ekki rétt en það var sagt í kynningunni. Þá skulum við bara fá alveg á klárt hver veruleikinn í þessu er, við skulum fá allar þessar staðreyndir fram á borðið. Ég skil þær ekki en ég hef reynt að lesa þetta og er farinn að skilja málið betur. Ég efast ekki um að menn muni gera það þegar þeir setjast yfir frumvörpin í efnahags- og viðskiptanefnd en ýmsum spurningum er ósvarað. Mér fyndist náttúrlega gott að fá svar við spurningunni hvernig þessi tala, 39%, var fundin. Hvernig var hún fundin?

Gagnrýnendur eins og Lilja Mósesdóttir og Indefence-hópurinn hafa talað um að kostnaðurinn af hruninu hafi verið miklum mun meiri en verið er að skattleggja fyrir núna. Þar koma fram sannfærandi rök en á móti vil ég segja líka sem móralska nálgun í þessu að þótt ég hafi ekki nokkra einustu samúð með þessum hrægömmum öllum finnst mér að við megum heldur ekki verða hluthafendur í slíkri hugsun, að við ætlum að reyna að hagnast á hlutunum. Við erum að reyna að gera hlutina eins vel og við getum og komast út úr þessu hruni og afleiðingum þess eins vel og við getum. Við erum ekki að ganga milli bols og höfuðs á kapítalismanum, því miður, það þarf fleiri til og stærri aðila en okkur. Við erum ekki að gera það en við gerum okkar besta til að takast á við verstu afleiðingar hrunsins í fjármálakerfi okkar og samfélaginu almennt. Það er ekki nokkur einasti vafi á því að þetta hrun hefur valdið okkur gríðarlegum skaða og við reyndum eins og kostur var á síðasta kjörtímabili að hlífa viðkvæmustu innviðum samfélagsins. Við erum öll sammála um það líka að það tókst ekki að öllu leyti, samanber það sem gerst hefur á Landspítalanum með allan tækjakost. Við reyndum þó að gera þetta.

Kannski var stærsti sigurinn fólginn í þessum áherslum okkar, að sönnu, en einnig í því að grípa ekki til úrræða sem mér finnst því miður örla á núna við sjóndeildarhringinn sem er einkavæðing, meiri beiting markaðsafla inn eftir spítalaganginum og í stoðkerfi samfélagsins. Það er það sem ég óttast. Í þessu var fólgið mikilvægi þess að fá á valdastóla ríkisstjórn sem vildi stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu, vildi standa vörð um innviði samfélagsins, reyndi að ráðast í skattbreytingar sem voru í þágu þeirra sem minnst höfðu en þá á kostnað hinna sem voru verulega aflögufærir. Þetta var einkennandi fyrir þá ríkisstjórn sem sat síðasta kjörtímabil og er hið gagnstæða við það sem við sjáum gerast núna. Það finnst mér hörmulegt og dapurlegt að skuli vera að gerast. Ef það er eitthvað sem við eigum að læra af er það það að horfa til aðdraganda hrunsins, hugsa til þess hvað gerðist þá og líka hugsa til þess núna af mikilli alvöru hvort það sé að hefjast taka tvö. Okkur ber skylda til að koma í veg fyrir að svo verði.