144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[13:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var að mörgu leyti frábær ræða hjá hv. þingmanni þótt ekki væri ég sammála öllu. Fyrst vil ég segja að ég er honum algerlega ósammála þegar hann segir að hlegið hafi verið að hv. fyrrverandi þm. Lilju Mósesdóttur eða gert grín að henni þegar hún kom fram með hugmyndir sínar um fjölgengi eða útgönguskatt. Ég minnist þess mjög vel að sá þingmaður flutti okkur hér nokkuð lærðar ræður, bæði utan og innan þings um útgönguskattinn í Malasíu á sínum tíma sem öllum, held ég, þóttu meira en einnar messu virði og ég tel að hv. þingmaður hafi komið með hugmyndir um útgönguskattinn sem lengi lifði. Þessi ríkisstjórn ákvað að fara ekki þá leið. Hitt er rétt að hugmyndir hv. þingmanns um fjölgengi voru flóknar og menn skildu þær ekki allir almennt og kannski ekki AGS heldur, ég veit ekki um það.

Hv. þingmaður spyr síðan: Hvernig var 39% stöðugleikaskattur fundinn út? Ef hv. þingmaður hefði hlustað grannt eftir ræðu hæstv. fjármálaráðherra hefði hann heyrt, svo ég vísi beint til orða hæstv. fjármálaráðherra, að það var handvalinn hópur kröfuhafa og síðan áttu menn samtöl, ekki samningaviðræður heldur samtöl við hann og var hlustað eftir viðhorfum þeirra. Út úr þessu komu 39%. Svo getur hv. þingmaður velt því upp hvað það þýðir. Það þýðir einfaldlega að samið var við handvalinn hóp kröfuhafa um 39%. Svo segir hv. þingmaður að skoða þurfi hvort stöðugleikaframlögin séu ígildi 39% stöðugleikaskatts. Hv. þingmaður kann að reikna og hefur sýnt það heldur betur á liðnum árum. Eignir þrotabúanna eru 2.200 milljarðar. Hæstv. fjármálaráðherra segir að greiðslurnar sem koma munu til ríkisins geti náð 500 milljörðum. Telur hv. þingmaður að 500 milljarðar séu 39% af 2.200 milljörðum?