144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Soros og hverjir aðrir þeir sem eiga kröfur á slitabúin munu náttúrlega ganga héðan út með góðan bónus. Hvað sem menn segja um stöðugleikaskattinn og reikna hann út, hæstv. forsætisráðherra nefndi töluna 1.000 milljarða í gær, er það eigi að síður staðreynd að þeir borga miklu minna. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að stöðugleikaframlögin muni hugsanlega geta farið upp í 500 milljarða. Það er miklu minna en ígildi stöðugleikaskattsins. Ástæðan er sú að partur af þessu bixi er að kröfuhafarnir fá alveg sérstakan bónus fyrir það að þetta heitir samningur. Þá afsala þeir sér öllum kröfum og möguleikum á því að hefja einhvers konar málarekstur. Ég nefni þetta sérstaklega til að draga athygli hv. þingmanns að þeirri staðreynd að hér hafa nokkrir þingmenn, þar á meðal ég, viljað fara samningaleiðina og ég veit að hv. þingmaður hefur sennilega verið annarrar skoðunar. En það breytir því ekki að þau okkar sem höfðu þá skoðun þurftu að sæta hér hvers konar kárínum og liggja undir ásökunum um það að vera einhvers konar landráðafólk.

Nú blasir það við að hæstv. forsætisráðherra hefur forgöngu um að menn fara nú einmitt samningaleiðina og gefa kröfuhöfum færi á m.a. að semja sig frá því mesta sem stöðugleikaskattur mundi gefa. Það þykir mér nauðsynlegt að undirstrika gagnvart hv. þingmanni vegna þess að það skiptir máli þegar menn fara yfir feril þessarar atburðarásar að það liggi algerlega ljóst fyrir að hæstv. forsætisráðherra, sem talaði með þessum hætti til þeirra sem vildu fara samningaleiðina og sagði nánast að þeir væru hálfgerðir landráðamenn sem ætluðu sér að semja við hrægammasjóðina, hefur sjálfur átt í samningum á laun við hrægammasjóðina síðustu mánuði. Útkoman er sú að í lokin býður hann meira að segja hverju slitabúi að mig minnir 60 milljarða bónus frá stöðugleikaskattinum (Forseti hringir.) til að koma að samningaborðinu og rita undir.