144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:04]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki gert þann málflutning sem hv. þingmaður vísaði í að mínum. En ég hef sagt að ef við sem skattgreiðendur nytum þess skilnings sem kröfuhafar hafa gert í þessum sal um að stjórnvöldum beri að setjast niður og ná samkomulagi við þá, eða öryrkjum eða öðrum sem fá skammtaðar tekjurnar eða settar eru skorður af hálfu löggjafans eða fjárveitingavalds, væri eitthvað annað uppi en reyndin er hér. Ég held að það sem skiptir máli og hafi skipt máli og deilan hefur náttúrlega staðið um sé hvert uppleggið hefur verið. Hafa menn sett það fram sem skýra afstöðu að setja eigi tiltekinn skatt á þessi bú, á þessar eignir, er það upplegg nokkuð sem máli skiptir og er og hefur verið líklegra til að gefa okkur góða niðurstöðu en hitt að setjast að samningaborði með þessum aðilum, sem þeir eiga náttúrlegan engan siðferðislegan rétt á? Allt tal um landráð er náttúrlega út í hött og að eitthvað annað hafi vakað fyrir nokkrum manni í þessum málum en gott og að gera gott fyrir okkar þjóð, hef ég aldrei nokkurn tíma efast um. Við erum að ræða það málefnalega og höfum gert það í tímans rás hvernig eigi að standa að þessum málum. Og nú erum við að reyna að meta málefnalega þá niðurstöðu sem liggur fyrir. Ég mundi ekki greiða atkvæði gegn því að þessi skattur yrði hækkaður og ég er ekki einn af þeim sem hefðu grátið það mikið þótt farið hefði verið með eitthvað af þessu í gjaldþrot þó að einhverjir slitabússtjórnarmenn hefðu þar með orðið af nokkrum hundruðum millj. kr.