144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér samhliða tvö frumvörp sem snúa að áætlunum um afnám fjármagnshafta. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um stöðugleikaskatt, mál nr. 786 sem er að finna á þskj. 1400. Hins vegar erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum og snýr að nauðasamningsumleitunum. Það er mál nr. 737 og er að finna í þskj. 1401.

Áður hafði þingið afgreitt mál nr. 785 á þskj. 1398 síðastliðinn sunnudag í tengslum við þessa áætlun, tengt því sama málefni og við ræðum hér, þ.e. áætlunin um afnám hafta eða frv. til laga um breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum, sem laut að reglum um fjármagnshöft, afnám undanþágna o.fl. og miðaði að því að styðja við fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda til að losa um fjármagnshöftin til að koma í veg fyrir og mæta þeirri hættu sem mögulega skapast á því sem kalla má sniðgöngu. Í raun vorum við hér að herða höftin þennan merka sunnudag til að geta losað um þau og greiða götuna til frelsis.

Áður en ég fjalla um þau tvö frumvörp sem hér eru til umræðu finnst mér full ástæða til að ítreka það sem ég kom að í andsvari við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, þ.e. ég vil óska ríkisstjórninni, þingheimi og þjóð til hamingju með þá áætlun sem ríkisstjórnin kynnti formlega í Hörpu og birtist okkur í þeim tveim frumvörpum sem við ræðum hér og hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir í gær. Eins vil ég þakka þá miklu vinnu sem liggur þarna að baki, eins og við sjáum á áætluninni og frumvörpunum. Sú vinna sem liggur þar að baki virðist vera vönduð og góð þannig að ég þakka þeim ráðgjöfum og sérfræðingum, bæði þeim sem komu sérstaklega að þessu vandasama verkefni og svo þeim sem störfuðu í okkar öflugu stjórnsýslustofnunum og ráðuneytum í tengslum við þessa vinnu.

Þá kem ég að frumvörpunum. Þau eru hvort um sig og saman mikilvæg þegar kemur að áætlunum losun fjármagnshafta. Segja má að frumvarp til laga um stöðugleikaskatt skapi forsendur fyrir afnámi hafta og með tilvísun í 1. gr. frumvarpsins má sjá að það fjallar um markmið og ráðstöfun. Ég ætla að meginhluta til að hafa þessa 1. gr. til hliðsjónar í ræðunni, og markmiðin og ráðstöfunina, en markmiðið er samkvæmt 1. gr. að stuðla að losun fjármagnshafta með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi. Í því skyni er mælt fyrir um skattlagningu sem ætlað er að mæta neikvæðum áhrifum í tengslum við lok slitameðferðar skattskyldra aðila. Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Þeir fjármunir sem falla til við skattlagningu samkvæmt lögum þessum skulu renna í ríkissjóð og skal ráðstöfun fjárins samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.“

Ég tel afar mikilvægt að horfa á málið út frá þessum markmiðum.

Í 2. gr. frumvarpsins er svo fjallað um skattskylda aðila sem eru þau fjármálafyrirtæki sem áður störfuðu sem viðskiptabankar og sparisjóðir og sæta slitameðferð eða hafa lokið slíkri meðferð. Ef við höldum áfram að skoða frumvarpið eins og það kemur fyrir þá teljast heildareignir skattskylds aðila í samræmi við 2. gr. sem ég nefndi hér. Til stofns teljast þá heildareignir eins og þær standa í árslok 2015. Þar er síðan kveðið á um virði mismunandi eigna í samræmi við þar að lútandi lög og ætla ég ekki að fara nákvæmlega yfir það hér.

Ég ætla að staldra við 4. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um skatthlutfallið og er það um 39%. Það má spyrja sig hvers vegna það er akkúrat 39% en ekki eitthvert annað hlutfall. Hv. þm. Ögmundur Jónasson var hér á undan mér í ræðu og velti þeim þætti fyrir sér. Það er spurning sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd ætti að fara yfir og spyrja út í vegna þess að eins og áætlunin kemur okkur fyrir sjónir er í raun og veru bara um tvær leiðir að ræða, stöðugleikaframlag eða skatt. Báðar leiðir eiga að skila sömu niðurstöðu eins og málið er kynnt.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að einu gildi hvort þær heildareignir sem mynda skattstofninn séu innlendar eða erlendar. Af þeim stofni reiknast 39% skattur. Þar segir jafnframt, með leyfi forseta, á bls. 35:

„Við ákvörðun hlutfallsins var horft til þess að stöðugleikaskattinum er ætlað að draga verulega úr þeim neikvæðu áhrifum á greiðslujöfnuð og efnahagslegan stöðugleika sem mundi að öðrum kosti leiða af uppgjöri slitabúanna og útgreiðslum þeirra til kröfuhafa utan fjármagnshafta.“

Enn fremur segir á bls. 36 að áætlað sé að eignir slitabúanna í íslenskum krónum verði um 35% af heildareignum þeirra eins og þær standa í árslok 2015. Á það er jafnframt bent að innlendar eignir slitabúanna séu ógn við stöðugleika og losun fjármagnshafta.

Við þessa ákvörðun var horft til þess að áhrif gengisbreytinga á verðbólgu hér á landi hafi verið meiri meðal annarra ríkja sem styðjast við verðbólgumarkmið.

Hér endurspeglast að einhverju marki sú ígrundun og meginmarkmið sem ég kom að í 1. gr. um að verja efnahagslegan stöðugleika og almannaheill og því eru þeir grundvallarhagsmunir hafðir hér til hliðsjónar. Mér finnst mikilvægt að draga þau sjónarmið fram hér því að þau endurspegla undirliggjandi markmið í þessari áætlun allri og í heild sinni og ekki síður þeirri útfærslu sem er á flóknu verkefni sem er mikið að umfangi. Ég fæ nokkurn skilning á þessu hlutfalli, 39% í gegnum greinargerðina bæði út frá markmiðunum og svo þeim hlutföllum sem við getum séð. Ef við tökum innlendar eignir slitabúanna og setjum í teljara og heildareignir í nefnara fáum við út um það bil þetta hlutfall.

Annars var ekki ætlunin hér í 1. umr. að fara í saumana á hverri þeirri lagagrein sem frumvarpið um stöðugleikaskattinn geymir, ég eftirlæt hv. efnahags- og viðskiptanefnd þá greiningarvinnu. Ég ætla frekar að ræða markmið og efnahagslegt mikilvægi.

Þessi frumvörp eru, að því tilskildu að þau verði að lögum að sjálfsögðu, mikilvægur hluti af heildstæðri áætlun og mynda ásamt öðrum aðgerðum og skilyrðum ramma um það val sem slitabúin hafa til að freista þess að ná samningum um og miða breytingar á frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki að því að auðvelda slit og nægilegar samningsumleitanir. Lagt er til hér í frumvarpinu að reglur um nauðasamningsumleitanir séu einfaldaðar, ellegar verði greiddur stöðugleikaskattur í samræmi við ákvæði þar um. Það má skilja svo að þeim slitabúum sem ekki fara þá leið fyrir næstu áramót að ná samningum verði gert að greiða stöðugleikaskatt. Þetta er þá væntanlega það sem sumir hafa kallað gulrót í formi samninga eða kylfu, sem er þá skatturinn og svo vitnað sé í dr. Sigurð Hannesson, varaformann framkvæmdahóps um afnám hafta. Hann segir í viðtali við visir.is að þetta sé kjarni málsins varðandi aðferðafræði stjórnvalda. Hann leggur áherslu á að viðræðurnar sem fram fóru við kröfuhafa hafi ekki verið samningaviðræður heldur fundir með þessum aðilum og var þeim gerð grein fyrir þessum tveimur valkostum. Þó er ánægjulegt af þeirri kynningu að dæma og tilkynningum og öllum fréttum sem við höfum séð undanfarna daga, að skilaboð stærstu kröfuhafanna í slitabúin hafa verið jákvæð þar sem þeir hafa lýst yfir vilja til að ganga að þeim stöðugleikaskilyrðum sem sett hafa verið fram. Þá er væntanlega verið að vísa til þeirra skilyrða sem felast í þessu og sem kröfuhafar þurfa að gangast við þegar þeir fara nauðasamningaleiðina, og kallað er stöðugleikaframlag.

Skilyrðin sem fylgja því eru í sex liðum til að tryggja greiðslu stöðugleikaframlagsins vegna núverandi krónueigna og draga úr óvissu af framtíðarendurheimtum krónueigna. Slitabúunum ber að uppfylla þessi stöðugleikaskilyrði að öllu leyti fyrir árslok 2015, að öðrum kosti verða búin skattlögð.

Þá hefur komið fram í umfjöllun um málið þessu til viðbótar og sem hluta af áætluninni við þessi lagafrumvörp að Seðlabankinn hefur birt tilkynningu vegna aðgerða til losunar fjármagnshafta þar sem sjá á vef Seðlabankans og hæstv. ráðherra gerði vel grein fyrir í ræðu sinni. Í tilkynningunni segir, sem mér finnst mikilvægt að hafa hér til hliðsjónar til að skoða í tengslum við áætlunina og fá eitthvert samhengi í hana, með leyfi forseta:

„Við veitingu undanþágu til uppgjörs fallinna fjármálafyrirtækja mun Seðlabanki Íslands líta til þeirra markmiða um stöðugleika sem stöðugleikaskatturinn byggir á. Í því sambandi mun Seðlabankinn taka mið af mögulegum lausnum vandans sem fram hafa komið í upplýsingaskiptum framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og fulltrúa kröfuhafa og slitastjórna um að:

1. gerðar verði ráðstafanir sem draga nægilega úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum,

2. að öðrum innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldeyri verði breytt í langtímafjármögnun að því marki sem þörf krefur og

3. að tryggt verði, í þeim tilvikum sem það á við, að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda í erlendum gjaldeyri sem veitt var nýju bönkunum í kjölfar hruns á fjármálamarkaði verði endurgreidd.“

Fram kemur í lok þessarar tilkynningar að byggt sé á samþykkt stýrinefndar um losun hafta og grundvöll um stöðugleika skilyrðanna. Lausnirnar felast í svokölluðu stöðugleikaframlagi, m.a. í beinu framlagi í íslenskum krónum sem rennur beint í ríkissjóð og öðrum aðgerðum sem slitabúin geta gengist undir í því skyni að ljúka nauðasamningum. Þau geta með því móti gengist undir þessi skilyrði og fengið undanþágu til að flytja fjármagn úr landi. Allur þessi umbúnaður er til þess að veita þær heimildir.

Þannig munu þessi lagafrumvörp taka á stærsta hluta þess undirliggjandi vanda greiðslujöfnuðar sem steðjar að og ógnar efnahagslegum stöðugleika. Það eru eignir slitabúanna, sem samtals eru um 900 milljarðar, og skiptast í 500 milljarða í krónueign slitabúa fallinna fjármálastofnana og 400 milljarða í kröfum þeirra á innlenda aðila í erlendri mynt.

Íslenskt hagkerfi er smátt í sniðum í samanburði við þessar fjárhæðir og stærsti vandinn er sannarlega fólginn í eignum slitabúanna. Óhjákvæmilegt er að draga úr því umfangi og þar liggja undir grundvallarhagsmunir íslensku þjóðarinnar. Ég segi: smátt í sniðum í samanburði við þessar fjárhæðir, því að heildarumfangið er 1.200 milljarðar. Ef við setjum það í eitthvert samhengi er uppsafnað heildarumfang snjóhengjunnar, sem svo er oft kölluð, 60% af vergri landsframleiðslu, 60% af öllum þeim verðmætum sem við sköpum og framleiðum á einu ári í íslensku hagkerfi. Þegar við setjum umfangið í það samhengi sjáum við hversu viðamikið og vandasamt þetta verkefni er og flókið úrlausnarefni. Mismunurinn á 1.200 og 900, þ.e. 300 milljarðar, er í svokölluðum aflandskrónum. Fjallað er um lausn þess vanda í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins og er býsna skýrt hvernig á að takast á við þann vanda. Jafnframt kom vel fram í þeirri kynningu sem við sem sáum hana og heyrðum hvernig takast ætti á við þann vanda. Aflandskrónurnar skapa vissulega vanda við losun fjármagnshafta þar sem um er að ræða mjög kvikar, auðseljanlegar krónueignir erlendra aðila sem gera má ráð fyrir að hafi veruleg áhrif á gengisstöðugleika ef tilraun væri gerð til að losa þær allar út í einu.

Það er auðvitað holt og bolt viðfangsefni að miðað við umfang alls þessa erum við ekki í færum til að losa þetta, eins og oft hefur verið rætt um á liðnum árum, að láta þetta bara fljóta allt saman. Aflandskrónuvandinn er leystur með uppboði á gjaldeyri og sölu skuldabréfa í íslenskum krónum og evrum með endurgreiðsluferil sem samræmist greiðslujöfnuði þjóðarbúsins. Eigendur aflandskróna geta valið á milli þriggja kosta. Sá fyrsti er gjaldeyrisuppboð, síðan er um að ræða fjárfestingar í ríkisskuldabréfum til lengri tíma og þriðji kosturinn eru vaxtalausir læstir reikningar, þannig að það er sannarlega hvati til að fjárfesta hér innan lands, ég tel það afar skynsamlegt.

Uppboðsaðferðin tryggir að böndum verður komið á allar aflandskrónur. Þeir aflandskrónueigendur sem nýta uppboðið til að bjóða í gjaldeyri í skiptum fyrir íslenskar krónur munu greiða fyrir það álag og bera þannig nauðsynlegan kostnað af því að losna undan fjármagnshöftum. Rétt er hins vegar að geta þess að unnið hefur verið á aflandskrónuvandanum með reglulegum gjaldeyrisuppboðum Seðlabankans og hefur náðst að vinna þann stabba niður miðað við þær upplýsingar sem er að hafa frá Seðlabanka Íslands úr 600 milljörðum í þá 300 milljarða sem eftir eru, svo vitnað sé í þær tölur sem komu fram á kynningunni í Hörpu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Þá vil ég að lokum nefna þá uppsöfnuðu fjárfestingarþörf sem myndast hefur hjá lífeyrissjóðum. Það er þriðji liðurinn í þessari áætlun sem lýtur að raunhagkerfinu, eins og það er orðað í áætluninni, og að einhverju marki hjá almenningi, einstaklingum og fyrirtækjum. Lífeyrissjóðunum verður gert heimilt að fjárfesta erlendis fyrir 10 milljarða á ári, sem er um fjórðungur af hreinu innstreymi lífeyrissjóðanna. Sú fjárhæð er komin til að kröfu lífeyrissjóðanna sjálfra sem þeir telja að þurfi og dugi til að viðhalda erlendu endurdreifingarhlutfalli þeirra. Þetta mun vonandi og væntanlega tappa eitthvað af þeim þrýstingi sem það skapar á innlendum markaði og getur haft bólumyndandi áhrif í hagkerfinu.

Aukinn styrkur og sá stöðugleiki sem náðst hefur, má segja að skapi kjörforsendur til að ráðast í afnám hafta nú. Þá eru langvarandi neikvæð áhrif af völdum hafta neikvæð fyrir atvinnulífið þar sem höft á frjálsu flæði fjármagns standa í vegi fyrir eða draga úr og hamla erlendri fjárfestingu og þátttöku erlendra aðila í væntanlegum fjárfestingarverkefnum. Þetta er dregið fram hér vegna þess að það er sannarlega ástæða til og hefur svo sem alltaf verið viðleitni til þess af hálfu stjórnvalda að finna lausn á vandanum. Þetta er hugsað til lengri tíma og margir hagsmunaaðilar og sérfræðingar hafa bent á langvarandi neikvæð áhrif af völdum hafta þótt vissulega komi jákvæð áhrif á móti. Það er óumdeilanlega algerlega nauðsynleg aðgerð. En þá getur óvissa að sama skapi dregið úr fjárfestingu innlendra aðila og hefur verið bent á að þrátt fyrir raunaukningu framleiðslu undanfarin ár, sem þýðir þá hagvöxtur, hefur fjárfestingin ekki náð að fylgja og fjármunaeign dregist saman. Slíkt dregur úr getu hagkerfisins til framtíðar til að framleiða verðmæti sem kemur á endanum niður á velferð og lífskjörum til framtíðar litið.

Þá geta höftin haft óeðlileg áhrif á verðmyndun fjármálamarkaðar og myndað svokallaðar eignabólur, eins og ég sagði áðan, eins og vísbendingar eru jafnvel um á fasteignamarkaði. Ef slíkar bólur verða óviðráðanlegar, eins og við höfum nú aldeilis upplifað, en hér erum við að tala um afmarkaða óeðlilega verðmyndun, getur það raskað fjármálastöðugleikanum.

Áhrifin eru umtalsverð og hér er ég kominn að lífeyrissjóðunum. Umsvif þeirra verða fyrirferðarmeiri á markaði heima fyrir en ella. Til að mynda var einn lífeyrissjóðanna í skráðum bréfum á markaði um það bil 36%. Það er umhugsunarefni hversu mikil þau umsvif eru. Höftin hafa óhjákvæmilega áhrif á alla alþjóðasamvinnu, svo ég segi nú ekki meira, og sem slík ganga þau þvert á frelsi fjármagnsflutninga samkvæmt EES-samningnum. EFTA-dómstóllinn mat það svo í ljósi aðstæðna á sínum tíma að slíkt hefði verið rétt að gera og að við hefðum haft fullan rétt til að setja á fjármagnshöft hér, en þau er vissulega farin að hafa áhrif.

Það er erfitt að meta með nákvæmum hætti þann kostnað sem fylgir höftum en kostnaður sem myndast við slíkar aðstæður kemur sannarlega í veg fyrir skilvirkustu nýtingu framleiðsluþátta og framleiðsluþættir eru jú mannauður, náttúruauðlindir og öll þau framleiðslutæki sem við nýtum og atvinnulífið í heild sinni. Hagkerfið líður fyrir það og kostnaðurinn lendir óhjákvæmilega að lokum hjá almenningi sem finnur þó kannski ekki dagsdaglega fyrir höftunum þar sem fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna vöru- og þjónustuviðskipta hafa almennt verið ótakmörkuð, enda hefur fjármagnshöftunum verið þannig hagað í grundvallaratriðum, sem er orðað ágætlega á bls. 6 í frumvarpi, með leyfi forseta:

„… að viðskipti sem teljast til viðskiptajafnaðar eru heimil, nema þau séu sérstaklega bönnuð, og viðskipti sem teljast til fjármagnsjafnaðar eru bönnuð, nema þau séu sérstaklega heimil.“

Hér hafa margir hv. þingmenn farið vel yfir tímalínur málsins en höftin hafa staðið nú staðið í sjö ár og er athyglisvert að á þeim tíma hafa engar raunhæfar tillögur borist frá kröfuhöfum slitabúanna. Eins og ég sagði áðan var óhjákvæmilegt að setja höftin á hér, það er óumdeilt, og var sú innleiðing nauðsynleg viðbrögð við því ástandi sem við upplifðum í kjölfar hruns til stoppa útflæði gjaldeyris og fall á gengi krónunnar. Að sama skapi þurfti nauðsynlega að skapa svigrúm til að vinna að efnahagsáætlun sem þá var unnin í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Segja má að frá því að Seðlabankinn setti hér reglur og aflétti öllum höftum á gjaldeyrisviðskiptum 28. nóvember 2008 vegna vöru- og þjónustuviðskipta og tók upp mjög strangar takmarkanir á fjármagnshreyfingar, að fjármagnshöftin hafi fram til þessa dags átt þátt í þeirri endurreisn íslensks efnahagslífs sem náðst hefur og hjálpað til við að ná þeim viðnámsþrótti sem okkur er nauðsynlegur til að takast á við það verkefni sem við erum að fara í og ræða.

Meðal annars hefur gengi krónunnar verið stöðugra en ella, eignaverð hefur haldist og ekki hrunið, sem hefði getað gerst, vextir eru lægri en ella, þó að raunvextir hér séu allt of háir og í raun íþyngjandi fyrir atvinnulíf og almenning og fara óhjákvæmilega út í verðlagið. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af þeirri vaxtahækkun sem peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað og tilkynnti í gær og boðaði í raun enn frekari hækkanir.

Í greinargerð frumvarpsins á bls. 7 er jafnframt talað um mikilvægt skjól gagnvart óstöðugleika á alþjóðamörkuðum og að þar sé nauðsynlegt að hafa ráðrúm til fjárhagslegrar endurskipulagningar og tækifæri yfirvalda til að móta æskilegt fyrirkomulag hagstjórnar. Ég vil segja að þessi fjármagnshöft hafa þó gert okkur kleift að endurreisa hagkerfið í slíku skjóli. Jafnframt hefur komið fram í umræðunni að sá tímapunktur í mars 2012 að koma í veg fyrir að uppgjör búa fallinna fjármálafyrirtækja stefndu efnahagslegum stöðugleika í hættu hafi verið afar farsælt skref. Og af því að ég heyri í hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem hefur verið mjög duglegur í umræðunni, hann hefur farið vel í málin og hefur verið hér í salnum, þá samglöddust þeir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hæstv. forsætisráðherra yfir þessum tímamótum og töldu þau afar mikilvæg.

Ég hef hér fjallað um frumvörpin út frá meginefni og markmiðum þeirra og sem hluta af þeirri heildstæðu áætlun sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú boðað til losunar fjármagnshafta. Allt frá því að peningabólan sprakk hér með gríðarlegt uppsafnað peningamagn í hagkerfinu höfum við glímt við þennan greiðslujafnaðarvanda, svo umfangsmikinn að höftin voru óhjákvæmileg, enda var hann af stærðargráðu sem ógnaði efnahagslegri velferð og þjóðarhag. Þessi yfirvofandi vandi hefur oft verið kallaður snjóhengja og er 1.200 milljarðar, eins og ég nefndi áðan. Hann er sú hindrun sem við ætlum nú að hrinda úr vegi. Hann samanstendur af innlendum eignum slitabúa, kröfum slitabúa innlendra aðila í erlendri mynt og í aflandskrónum vaxtamuna fjárfesta, eins og ég fór reyndar yfir fyrr í ræðu minni.

Hinn samfélagslegi kostnaður sem varð af hruninu og endurreisn fjármálakerfisins sem þurfti að ráðast í, birtist í gríðarlegum skuldum ríkissjóðs og þeirri vaxtabyrði sem við erum að kljást við, sem eru hátt í 80 milljarðar á ári. Það kemur skýrt fram í stefnu núverandi ríkisstjórnar og í ríkisfjármálaáætlun að agi og aðhald er forsenda viðspyrnu og til að ná niður skuldum ríkissjóðs og þar með þeirri vaxtabyrði sem ég nefndi hér. Það er jafnframt skýrt markmið hæstv. ríkisstjórnar að lækka þessa vaxtabyrði. Ég kom inn á ákvörðun peningastefnunefndar um vaxtahækkun í umsögn með yfirlýsingu með þeirri ákvörðun sem að mestu er tengd nýgerðum kjarasamningum. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í þá yfirlýsingu:

„Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að sumar af nýkynntum aðgerðum stjórnvalda sem miði að því að búa í haginn fyrir losun fjármagnshafta muni afla ríkissjóði tekna. Mikilvægt sé að þeim verði ráðstafað þannig að þær verði ekki til að auka enn frekar á spennu í þjóðarbúskapnum með því að virkja peningamagn sem til þessa hafi verið óvirkt.“

Hér kemur glögglega fram það sem ég kom inn á í byrjun ræðu minnar og er í 1. gr. frumvarps um markmið og ekki síður ráðstöfun. Það skiptir afar miklu máli að við vinnum vel með þá áætlun sem okkur hefur verið birt nú og að framkvæmdin takist jafn vel til og okkur farnist jafn vel og áætlunin birtist okkur í þeirri vegferð sem fram undan er.