144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki álasa ég hv. þingmanni fyrir að geta ekki nefnt mér töluna, ég þekki hana ekki sjálfur og hef ekki getað gert mér algerlega grein fyrir henni. En þá velti ég fyrir mér, ef komast á að sömu niðurstöðu hvor leiðin sem farin er, hvernig geta menn þá talað um svipu og gulrót? Hver er þá hvatinn fyrir slitabúin að uppfylla stöðugleikaskilyrði fremur en að sæta stöðugleikaskatti? Ég held að hér hljóti að vera einhver misskilningur á ferðinni.

Svo vísa ég til viðtala við hæstv. fjármálaráðherra sem sagði nú bara fyrir þremur dögum síðan að slitabúin gætu sparað sér allmiklar upphæðir ef þau kysu þann kost að reiða af höndum stöðugleikaframlög og uppfylla stöðugleikaskilyrðin fremur en láta setja á sig stöðugleikaskatt. Þannig hef ég auðvitað skilið það.

En fyrir mig skiptir líka máli að hæstv. fjármálaráðherra sagði okkur að það hefðu verið það sem hann kallaði samtöl og hv. þingmaður vísaði til dr. Sigurðar Hannessonar sem sagði að samtölin hefðu alls ekki verið samningaviðræður. En eigi að síður sagði hæstv. fjármálaráðherra að í þessum samtölum, sem stóðu yfir um tveggja mánaða skeið að minnsta kosti, hefði verið hlustað grannt eftir viðhorfum slitabúanna um hvernig menn ættu að komast á þann áfangastað sem íslenska ríkið vildi.

Ég hef fyrir framan mig útskrift af heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram að þessi svokölluðu erindi eða rammasamningar milli hluta kröfuhafa slitabúanna annars vegar og framkvæmdahópsins hins vegar voru undirritaðir áður en hinn frægi fréttamannafundur var haldinn í Hörpu. Þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að þarna hafi þrátt fyrir allt átt sér stað samningaviðræður sem hafi leitt til niðurstöðu sem menn samþykktu fyrir fundinn og fengu (Forseti hringir.) út á það bónus upp á einhverja tölu sem hvorki ég né hv. þm. Willum Þór Þórsson vitum hvað er há.