144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni seinna andsvarið og vangaveltur, enda gerþekkir hann málið og var hæstv. ráðherra í síðustu ríkisstjórn og búinn að vera hér allan þennan feril. (Gripið fram í.) — Nei. En við getum velt því fyrir okkur hver tilgangur þeirra skilyrða er sem verið er að setja fram. Skilyrðin eru, eins og segir í texta sem ég er með í sambandi við þetta mál, ófrávíkjanleg af hálfu stjórnvalda til að hlutleysa framtíðaráhrif útgreiðslna úr slitabúi.

Kröfurnar á milli slitabúa eru ólíkar þannig að ég hef ekki neinar forsendur til að átta mig á hvatanum til að fara aðra hvora leiðina. Hann er örugglega mismunandi eftir því hvers eðlis kröfurnar eru og samsetning krafna á milli slitabúa þannig að það er ómögulegt að segja til um það. En vissulega eru þessi skilyrði sett fram til að tryggja grundvallarhagsmuni og draga úr óvissu um framtíðarendurheimt. Þetta er eins nálægt og ég kemst í þessu andsvari, hv. þingmaður.