144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru lokaorð hv. þingmanns sem gerðu að verkum að ég hafði orð á þessari aðdáun hans á forsætisráðherranum og ég efast svo sem ekki um að það hafa fleiri hér.

En það var ýmislegt skynsamlegt sem kom fram í ræðu þingmannsins. Mér fannst hann tala á þann hátt að það þyrfti að sýna mikla varúð hvað varðar ríkisfjármálin. Og nú eru að safnast hérna fyrir utan félagar úr BHM og hjúkrunarfræðingar sem eru í verkfalli og eiga yfir höfði sér að verkfallsrétturinn verði tekinn af þeim.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þær ræður sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið um skattalækkanir sem svigrúmið, sem hér er að skapast, veitir honum tækifæri til að hrinda í framkvæmd.