144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef tekið eftir því, eins og hv. þingmaður, að hópur fólks hefur safnast hér utan dyra vegna kjaradeilu BHM og hjúkrunarfræðinga. Ég hef tvívegis sjálfur gert að umræðuefni að undanförnu að brýn þörf sé á því að semja í þeirri deilu með hvaða ráðum sem til þarf. Það er algjörlega óþolandi að verkfallsdeilur skuli ógna lífi og heilsu fólks. Ég er enn á því.

Hvað varðar hugsanlegar skattalækkanir, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur boðað, þá hefur svo sem ekki komið mjög nákvæmlega fram í hverju þær felast. Auðvitað er það þannig að þær skattalækkanir sem þegar hafa komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa komið þeim sem hafa millitekjur og lægri til góða. Það er vel. Auðvitað þarf að horfa á allan þann þorra sem við höfum hér þegar við tökum ákvarðanir í skattamálum og ég treysti því að það verði gert.