144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er lögmæt nálgun hjá hv. þingmanni. Staðreyndin er hins vegar sú, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur undirstrikað, meðal annars í andsvari við mig, að þetta eru ekki stríðsskaðabætur, þetta er ekki til þess að bæta okkur upp eitt eða neitt. Þetta er til þess að viðhalda fjármálalegum stöðugleika. Hitt sjónarmiðið er algjörlega lögmætt en því var af ýmsum ástæðum ekki beitt. Hv. þingmaður segir að menn hafi verið að vinna hér með einhvers konar nefndir lengi og það er hárrétt hjá honum. Má ég rifja upp fyrstu nefndina sem ég spurði hæstv. forsætisráðherra um sem starfaði í, hvað, sex mánuði? Svo bara gufaði hún upp. Af hverju gufaði hún upp? Það kom fram líka opinberlega þó að það væri ekki staðfest, vegna þess að það var ágreiningur um gjaldþrotaleiðina eða samningsleiðina.

Ég vildi aðeins draga þetta upp vegna þess að hv. þingmaður talaði þannig í sinni ræðu eins og ég hefði verið að segja að hæstv. forsætisráðherra hefði verið að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Það er ekki það sem ég átti við og hef aldrei sagt það, en ég taldi að þetta væru dómgreindarglöp hjá honum. Hins vegar, af því að hér hafa bæði Sesar og Brútus verið nefndir til sögunnar, þá er líka fræg tilvitnun í Sesar Shakespeares: Meinin, Brútus minn, eru ekki í örlögum okkar heldur í okkur sjálfum. Allir eru ófullkomnir.

Það hafa ekki allir fullkomna dómgreind, ekki heldur hæstv. forsætisráðherra.