144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda síðustu kosninga skrifaði hv. þingmaður grein í Morgunblaðið sem bar yfirskriftina „Söguleg svik ríkisstjórnarinnar“. Þar fer hann, að mínu mati, af mikilli ósanngirni í fráfarandi ríkisstjórn og líka með ósannindum. Í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Ef marka má fréttir undirbýr ríkisstjórn velferðar nú söguleg svik gagnvart almenningi á Íslandi. […] Sé það rétt að til standi að gera samninga við vogunarsjóðina á síðustu dögum kjörtímabilsins er það þvílík ósvinna að því verður vart trúað.“

Nú er komin aftur lending í málinu, tveimur árum síðar, sem er á svipuðum nótum og verið var að vinna með þegar hv. þingmaður skrifaði þessa grein og kallaði „þvílíka ósvinnu“. Ég þarf ekki að fara yfir þessa grein, hann nánast sakaði okkur um að vera að stela af þjóð okkar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hafi breyst. Hann virðist hafa skipt um skoðun á málinu vegna þess að það sem (Forseti hringir.) eitt sinn voru söguleg svik er núna orðið stórkostlegur árangur.