144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er hér fjallað um samninga, þetta fjallar um að fara nauðasamningaleiðina í stað þess að fara gjaldþrotaleiðina eins og boðað hefur verið og talað hefur verið fyrir af flokki hv. þingmanns. Það sem hv. þingmaður var að fjalla um í þessari grein, í aðdraganda síðustu kosninga, var nákvæmlega það sama og er að gerast hér, þ.e. að það voru ákveðnar þreifingar á millum manna um það hvernig menn gætu gert þetta til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Það sem talað var um á þessum tíma var nákvæmlega það sem verið er að gera hér núna, með sömu niðurstöðu. Það sem áður var kallað söguleg svik er nú orðið stórkostlegur árangur. Og ég fagna því vegna þess að ég og þingmaðurinn erum loksins komin á sömu blaðsíðu í málinu.

Ég verð líka að nefna það að mér þykir alveg ótrúlegt að heyra hér að hv. þingmaður telji að Framsóknarflokkurinn og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi fundið upp svigrúmið. Það sem þeim tókst hins vegar að gera var að markaðssetja hugtakið svigrúm með mjög snjöllum hætti á það sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafði verið að tala um og það sem við höfðum verið að tala sem hressilega niðurfærslu (Forseti hringir.) á innlendar eignir þrotabúanna. Það er allt og sumt þannig að þetta var ekki fundið upp af Framsóknarflokknum, hins vegar markaðssetti hann það með mjög snjöllum hætti.