144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Svigrúmið var vissulega ekki, frú forseti, fundið upp af Framsóknarflokknum, en það var fullnýtt af Framsóknarflokknum. Þær aðgerðir og þær aðferðir sem Framsóknarflokkurinn boðaði árið 2013 og sem nú verða fullnustaðar í samræmi við það eiga eftir að skila landi og þjóð umtalsverðum fjármunum. Þetta er í sjálfu sér, eins og hér hefur komið fram áður, dæmi um það hverju einbeittur vilji og kjarkur geta áorkað. (Gripið fram í.) Hér segir, haft eftir Lee Buchheit, að menn nálguðust málin með aðferðafræði kylfu og gulrótar, þ.e. aðferðafræði hörku eða umbunar. Í tilviki haftaáætlunarinnar var stöðugleikaskatturinn kylfa en gulrótin fólst í því að stjórnvöld greiða götu (Forseti hringir.) nauðasamninga með lagabreytingum. Ergó, menn stóðu frammi fyrir tveimur kostum sem báðir eru Íslendingum mjög hagfelldir. (Gripið fram í.)