144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega efnahagslegur veruleiki sem hefur blasað við síðan haustið 2008, og framsóknarmenn uppgötvuðu hann ekki, að Ísland átti ekki gjaldeyri og mundi ekki framleiða gjaldeyri á næstu árum til að skipta yfir í erlendar myntir öllum þeim krónueignum sem voru í höndum útlendinga. Þrátt fyrir 50% gengisfall myndaðist strax aflandsgengi á íslensku krónunni þannig að evran var upp undir 100 kr. dýrari þar en á aflandsmarkaði. Þess vegna voru sett á gjaldeyrishöft. Framsókn fann þetta ekki upp.

Auðvitað er snúið rökfræðilega fyrir þá að reyna að snúa þessu yfir í mikinn sigur fyrir sig þar sem niðurstaðan er önnur aðferð en þeir lögðu til, sem sagt gjaldþrotaleiðin.

En ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að ráðgjafar íslenskra stjórnvalda og íslenskur fjármálaráðherra leggur mikla áherslu á að talað sé þannig að grundvöllur þessara aðgerða, tilgangur þeirra, sé ekki að afla ríkissjóði tekna heldur að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftum án þess að það raski gjaldeyrisstöðugleika. Það er lögð á þetta mikil áhersla til að styrkja okkar málflutningsaðstæður. (Forseti hringir.) Finnst hv. þingmanni þar af leiðandi skynsamlegt að tala með þeim hætti sem hann gerir hér, eins og það sé aðalmarkmið þessara aðgerða að fá peninga í ríkissjóð til að efna kosningaloforð Framsóknarflokksins?