144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra orðaði þetta ágætlega í umræðunum, að ég hygg í gær, þegar hann sagði að grundvöllur þessa af Íslands hálfu væri að hvorki væri tekið meira né minna en þyrfti til þess að hægt væri að vinda ofan af gjaldeyrishöftunum, losa þrotabúin út úr þjóðarbúinu, losna við aflandskrónurnar án þess að raska gjaldeyrisstöðugleika og ofbjóða greiðslujöfnuði landsins.

Hvers vegna skiptir þetta máli, frú forseti? Nú kann vel að vera að menn hafi ekki áhyggjur af því þótt hér falli ógætileg orð. Þetta skiptir gríðarlegu máli vegna þess að þetta er hinn lagalegi grundvöllur þessara aðgerða, þetta er réttlætingin fyrir þeim. Mér finnst skipta máli að það sé talað ábyrgt um þessa hluti og Ísland sé ekki sett í verra ljós en á þarf að halda. Þess vegna er málflutningur framsóknarmanna, þegar þeir eru að reyna að slá sig til riddara, ekkert sérstaklega gáfulegur vegna þess að hann mundi ef til kæmi veikja málflutningsaðstæður Íslands til dæmis fyrir dómi þar sem er afar mikilvægt að hinn ábyrgi málflutningur fjármálaráðherrans gildi en ekki önnur (Forseti hringir.) og lítt yfirvegaðri orð.

Þetta er nákvæmlega svona, grundvöllur aðgerðanna er að skerða þessar krónueignir hvorki meira né minna en þarf til þess að hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum.