144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú er sá sem hér stendur meðaleintak af fávísum framsóknarmanni eins og hv. þingmaður hefur lýst undanfarið og jafnvel óforskammaður og hugsanlega geðvilltur eins og hér hafa fallið orð um. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar ekki taka undir það að ég hafi í ræðu minni hér áðan talað á nokkurn hátt ógætilega, ég talaði þvert á móti um það að það svigrúm sem skapaðist með þessum gerningi, þessum tillögum sem hér eru lagðar fram, þessum lagabreytingum sem hér eru lagðar fram, mundi nýtast Íslendingum vel. Auðvitað er það alveg laukrétt, sem hv. þingmaður segir, að hér er ekkert verið að ganga freklega á rétt þeirra sem við er að eiga, alls ekki. Það er verið að ganga, eins og hæstv. fjármálaráðherra vitnaði réttilega til, jafn langt og þarf (Gripið fram í.) og ekkert lengra en það. Það er ekkert verið að ganga hér fram af einhverjum böðulsskap gagnvart þeim aðilum sem eru mótaðili stjórnvalda í þessu máli, síður en svo.