144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Við fögnum því öll að áfangi hefur náðst við lausn á brýnasta úrlausnarefni í efnahagsmálum þjóðarinnar. Lögð hafa verið fram frumvörp um hvernig það skuli gert. Í fyrsta lagi hefur verið lagt fram frumvarp sem er uppskrift að þeim nauðasamningum sem íslenska ríkið er tilbúið að bjóða kröfuhöfum þrotabúa bankanna. Í annan stað er frumvarp um margumtalaðan stöðugleikaskatt sem kveður á um 39% skatt á heildareignir þrotabúanna. Þessi skattur verður lagður á þrotabúin hafi þau ekki gengið að skilyrðum í nauðasamningum fyrir næstu áramót.

Við höfum heyrt það hér í ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að fregnir höfðu borist af því að lykilkröfuhafar þrotabúanna, ef ég má kalla það svo, höfðu lýst því yfir að þeir væru tilbúnir að ganga að þessum skilyrðum. Það kemur fram í Fréttablaðinu í gær að Kaupþing hafði beinlínis sent skriflega yfirlýsingu um helgina þess efnis. Þar sem þessir kröfuhafar hafa þunga vigt í hópi kröfuhafa voru taldar líkur á því að aðrir kröfuhafar mundu einnig ganga að þessum nauðasamningum, alla vega nógu stór hluti þeirra í hverju búi til að samningar yrðu samþykktir. Reyndar er í lögunum um nauðasamningana líka talað um, væntanlega til öryggis, að lækka það hlutfall kröfuhafa sem þarf að samþykkja nauðasamninga á slitastjórnarfundi eða fundi þar sem greitt er atkvæði um það.

Þessi niðurstaða er ekki afrakstur viðræðna á milli ráðherra eða ríkisstjórnarinnar sjálfrar og kröfuhafa heldur hafa ráðgjafar hennar staðið í þessum samtölum. Þau hafa leitt til þeirrar niðurstöðu sem ríkisstjórnin leggur nú fyrir Alþingi til samþykktar. Ef við samþykkjum þetta þá er stórum áfanga náð. Við búum þá ekki lengur við þá ógn sem slitabú bankanna vissulega gætu verið og hafa sannarlega verið af því að þau hafa verið hangandi yfir okkur.

Við erum í svo barnalegu umhverfi að okkur þykir sumum nauðsynlegt að gæta mjög orða okkar um þetta ferli því að valdamiklir menn og öfl, ekki bara hér í húsinu heldur líka í þjóðfélaginu, eru á móti samningum yfirleitt og ekki síst við útlendinga. Við verðum svo meðvirk að við tiplum hér um og tölum um samtal en ekki samninga. Við verðum að skilja að ekki er verið að semja við kröfuhafa, það er verið að setja þeim úrslitakosti. Nefni menn þetta einhverjum öðrum nöfnum getur stóri björninn reiðst og skúnkarnir farið af stað með þeim óþrifum sem þeim fylgir. Það viljum við forðast rétt eins og við viljum ekki efna til ófriðar um þetta mikilvæga mál, enda engin ástæða til.

Í framsögu hæstv. fjármálaráðherra kom fram að það var í raun ekki fyrr en á árinu 2014 sem hann taldi að umfang vandans hefði í raun legið fyrir. Kannski vitum við það ekki alveg enn því að á forsíðu Fréttablaðsins í gær er viðtal við Sigurð Hannesson sem er einn af ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Þar segir hann að það sem verði hægt að fá inn af búunum verði um það bil 570 milljarðar. Svo segir hann orðrétt:

„Ef það verður meira þá er það náttúrlega gott fyrir ríkissjóð, en þá þýðir það líka að vandinn var stærri en við héldum. Þannig að við náum miklu betur að finna jafnvægi á milli vandamálsins og lausnarinnar.“

Mér sýnist það nú vera þannig að það sé meira að segja ekki enn alveg ljóst hve stór vandinn er og það komi kannski í ljós með því hvaða leið kröfuhafarnir velja út úr þessu. Nú hafa þeir allir sent það frá sér skriflega að þeir velji nauðasamningana og ég vona svo sannarlega að það haldi.

En þó að þetta umfang sé kannski ekki enn ljóst, og hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki talið sig ná utan um hvert það væri fyrr en árið 2014, þá breytir það því hins vegar ekki að strax á árinu 2011 gerði Seðlabankinn áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Skrefin voru vissulega lítil í fyrstu en unnið var eftir áætluninni og mjög mikilvægar ákvarðanir teknar. Þá ætla ég enn, eins og margir aðrir þingmenn hafa gert hér, að nefna lögin sem sett voru 12. mars 2012.

Síðan var ný áætlun sett fram haustið 2013, enda er það ekki nema eðlilegt að ný ríkisstjórn geri eigin áætlun. Sem betur fer hefur stjórnmálamönnum, allt frá þeim tíma að fyrsta áætlunin var gerð og hingað til, auðnast að taka farsælar ákvarðanir. Því ber að fagna. Þær ákvarðanir hafa verið byggðar á gífurlegri vinnu embættismanna, bæði í Seðlabankanum og Stjórnarráðinu, og ráðgjafa sem hafa verið ráðnir sérstaklega til verksins. Því fólki ber auðvitað öllu að þakka.

Um nokkurt skeið má segja að það hafi verið heppilegur tími til að afnema höftin því að vaxtamunur hér og í umheiminum er mikill. Stýrivextir voru hækkaðir um 0,5% í gær upp í 5,5% en í Evrópu eru vextir um 0% og einhvers staðar var meira að segja talað um að þeir væru neikvæðir. Vaxtanna vegna er því ekki mikil eftirspurn eftir því að færa peningana héðan út. Ef menn þykjast nokkuð öruggir um að gengi krónunnar haldi þá er kannski ekki mikil eftirspurn eftir að losa peninga héðan þannig að þetta er góður tími til þess að gera þetta.

En þegar fer að losna um gjaldeyrishöftin þá verður þessi vaxtamunur sérstök áskorun fyrir okkur. Vaxtamunur var einmitt ein ástæða þess að hingað streymdu peningar fyrir hrun, peningar sem ollu gífurlegri þenslu sem stjórnvöld réðu á engan hátt við. Það má auðvitað ekki gerast á ný. Það er alveg ljóst að ef við ætlum ekki að vera eins og umgirtur hólmi, eins og við höfum verið undanfarið, þá verður að eyða þessum vaxtamun því að annars er hætta á að fjármagn leiti aftur hingað inn að hærri ávöxtun. Auðvitað verður það ekki í dag eða á morgun en tíminn líður hratt svo að það þarf að byrja að hugsa um þetta ekki seinna en núna.

Virðulegi forseti. Ég veit hver lausnin á þessu er en það eru alls ekki allir sem vilja horfast í augu við hana. Hún er sú að taka upp annan gjaldmiðil, hún er sú að taka upp evru sem við gerum ekki nema við eigum aðild að Evrópusambandinu. Menn verða að fara að horfast í augu við þessa staðreynd fyrr en seinna. Því fyrr sem þeir gera það, því betra.

Enn þá nær í tíma er þó hættan á því að við kunnum ekki að fara með þá peninga sem vænta má að falli til íslenska ríkisins eða Seðlabankans vegna þessara aðgerða Við sjáum náttúrlega í hendi okkar að fyrst fara 145 milljarðar eða svo, geri ég ráð fyrir, í að greiða niður skuldabréf ríkisins sem eru í Seðlabankanum — eða Seðlabankinn greiðir ríkinu sitt skuldabréf, Davíðsbréfið svokallaða, 145 milljarðar sem ríkið þurfti að gefa út í lok 2008 til að forða Seðlabankanum frá gjaldþroti. Síðan er ljóst að ekki verður innheimtur bankaskattur á þrotabúunum til að standa undir leiðréttingunni svo þangað fara einhverjir tugir milljarðar líka. Eru ekki 40 milljarðar eftir af því? Samt sem áður hefur verið talað um að þessir peningar eigi að fara í að lækka skuldir ríkisins, ekki út í þjóðfélagið, ekki í neysluna.

Líkt og aðrir þingmenn hafa gert hér á undan þá vara ég við því að menn fari á skattalækkunartripp. Ég þykist vita að ræður hæstv. fjármálaráðherra í gær og í dag um skattalækkanir séu yndistónar, unaðstónar, í eyrum einhverra. Ég held hins vegar að það gæti verið skynsamlegt af honum og fleirum að hugsa til þess að það eru miklu fleiri sem hafa áhyggjur af óréttlætinu í þessu þjóðfélagi og stjórnvöldum væri nær að hugsa um það frekar en fá glýju í augun yfir því að geta farið að lækka skatta.

Það þarf sterk bein til að standast freistingar og það mun kalla á mikinn viljastyrk að stýra ríkisfjármálunum, þegar um hægist, á þann veg að hagkerfið bólgni ekki út og verði óviðráðanlegt. Það hefur því miður verið lenskan hér á landi að óstjórn hefur ríkt í ríkisfjármálum þegar vel árar. En við hljótum að vona að við höfum lært okkar lexíu á undanförnum árum og að ófarirnar 2008 hafi kennt okkur að ganga hægt um gleðinnar dyr. Ég trúi því og treysti að svo sé.