144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún deili áhyggjum mínum af því að það er sama hvort það er stöðugleikaskatturinn eða þannig að peningar rati til hins opinbera í krafti þess að Seðlabankinn fái peninga frá slitabúunum í kjölfar nauðasamninga, í báðum tilfellum eru þetta um 450–650 milljarðar sem rata inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabankanum. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún deili áhyggjum mínum af því hvernig þetta er sett upp í frumvörpunum, því að þótt það komi fram að ráðstafa eigi fénu á ábyrgan hátt kemur jafnframt fram að það eigi að gera á fjárlögum og allir sem ég hef spurt hingað til hafa sagt mér að það bindi ekki hendur löggjafans eða framkvæmdarvaldsins, sem raunverulega leggur fram fjárlagafrumvörpin upprunalega, í meðferð sinni. Það bindur ekki hendur þeirra hvað varðar hvernig þeir geta notað þetta fé. Þeir geta notað það á ábyrgan hátt. Þeir geta í rauninni varið því eins og þeim sýnist.

Í allri meðferðinni á þessu er alveg skýrt, og það hefur margoft komið fram í umræðunni, að ef við förum að nota þessa peninga beint mun koma kall utan úr heimi: Sjáið þið, þetta var ekki stöðugleikaskattur eftir allt saman. Þetta snerist um það að taka þessa peninga og fara að eyða þeim. Það þýðir að lagaleg staða Íslands verður gríðarlega óviss og óörugg. Það sem við getum hins vegar gert er að nota þá til að greiða upp skuldir, sem þýðir að við höfum úr meira að spila og getum farið að byggja upp hagkerfið okkar á öruggan og stabílan hátt. Ég vil spyrja þingmanninn hvað henni sýnist hægt gera. Ein leiðin væri að læsa þessa peninga inni með þeim skilyrðum að þeir yrðu notaðir á þann ábyrga hátt að greiða upp skuldir eða alla vega þannig að þeir yrðu ekki þensluhvetjandi og settu okkur ekki í þessa lagalegu óvissu.