144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þessum áhyggjum með þingmanninum. Það kom fram í andsvörum áðan, sem hann segir líka, að það sé mjög mikilsvert vegna þess að lögin byggja á því að þetta sé til að stöðva gjaldeyris- eða greiðsluflæðið og halda hér efnahagslegum stöðugleika og eitthvað slíkt. Lögin hvíla á því. Þess vegna skiptir náttúrlega miklu máli að þau haldi ef, eins og hv. þingmaður segir, mönnum dettur í hug — og það er alveg óþarfi að segja „ef mönnum dettur í hug“ vegna þess að það er auðvitað alls ekki ólíklegt að einhverjum detti í hug að efast um lagagrundvöllinn.

Þess vegna skiptir gífurlega miklu máli hvernig farið verður með þessa peninga. Ég veit ekki hvort það er beinlínis hægt að setja það í lög að þessir peningar skuli ekki fara í annað en greiða niður skuldir. Ef það er hægt finnst mér það umhugsunarvert, ef ég nota það orð. Hins vegar er ljóst að ef við borgum niður skuldir lækka vextir ríkisins og ég hef sannast að segja líka áhyggjur af því að við kunnum ekki nógu vel með það að fara, það svigrúm sem okkur auðnast þá, og að hér fari allt af stað í hagkerfinu. Mér fyndist það ekki ótrúlegt en trúi þó og treysti að við höfum lært af þeim ósköpum sem dundu yfir haustið 2008 þannig að það verði ekki aftur.