144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það eru einmitt til leiðir til að festa þetta í lög. Norðmenn fundu olíu og sáu fram á að ofboðsleg verðmæti færu að flæða inn í hagkerfið — þetta er oft kallað hollenska veikin — og til að tryggja að því gríðarlega mikla nýja fjármagni, þessum nýju verðmætum, yrði varið á ábyrgan hátt, og líka með hag komandi kynslóða að leiðarljósi, settu þeir í lög að festa ætti fjármagnið í sjóði. Sjóðurinn var þannig úr garði gerður með lögum að ekki var hægt að verja fjármagninu nema á ábyrgan hátt; fyrir hagkerfið, fyrir vöxtinn og fyrir framtíðina.

Það eru fjölmörg önnur ríki sem hafa gert þetta. Sádi-Arabía er eitt þeirra. Þeir fundu olíu, þeir eru með sjóð sem er kallaður Fund for the future generations eða sjóður fyrir framtíðarkynslóðir. Þessi olía mun þrjóta og þess vegna vilja þeir vera vissir um að vera þá með sjóð sem hægt er að nýta. Þetta er því hægt og er þekkt þegar einhvers konar hvalreki verður, hvort sem hann er í formi olíugróða eða olíufundar eða eins og núna þegar við erum að tryggja stöðugleika og í stöðugleikaaðgerðunum verða miklar krónueignir til þá þarf tryggja að farið sé með þær á ábyrgan hátt og þær fari ekki í eitthvert pólitískt spil. Að sjálfsögðu verður sú krafa gerð. Það er svo sterk krafa að fara að byggja upp og byggja upp strax. En ef við föllum í þá gildru að nota þessa peninga, nota þetta kökubox í Seðlabankanum, seilast í það í staðinn fyrir að nota peningana til að borga upp skuldir, sem gefur okkur svigrúm til að vaxa hægt og örugglega, þá gæti það verið mikil ógæfa, lagaleg ógæfa, og mikill efnalegur óstöðugleiki skapast í kjölfarið.