144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsaði bara ekki nógu langt, auðvitað þekki ég olíusjóðinn norska og aðra sjóði af því tagi. Það mætti hugsa sér að stofnaður yrði sérstakur sjóður sem þessir peningar rynnu í og síðan yrðu settar einhverjar ákveðnar reglur um hvernig mætti úthluta þeim eða við settum þær reglur að einungis mætti nota þá til að greiða niður skuldir. Í mínum eyrum hljómar það ekki óskynsamlega, alls ekki, og yrði þá svona belti og axlabönd fyrir okkur til að fara skynsamlega með þá peninga.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að menn eru þegar farnir að tala þannig að maður óttast að þeir vilji gjarnan fara út og kaupa og byggja upp og gera eitthvað við þessa peninga. Hins vegar, þó að þetta verði sjóður, þá verður náttúrlega líka að hugsa til þess að því miður hafa menn alltaf stjórnað sjóðum. Það er náttúrlega hægt að breyta reglum um sjóð þó að honum hafi einu sinni verið komið á. Þó að stofnaður sé sjóður um þetta þá er það ekki gulltryggt. Ég man ekki hvenær verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins var stofnaður; honum var öllum eytt án þess að nokkur sérstakur aflabrestur yrði. Mennirnir eru ófullkomnir, en það sem skiptir meginmáli er að allir (Forseti hringir.) séu klárir á því að þessir peningar eigi að fara í þetta verkefni. Ef við getum tryggt það með einhverjum girðingum (Forseti hringir.) finnst mér það umhugsunarvert.