144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér fyrir utan hafa safnast saman hundruð manna til að mótmæla því að kalli þeirra um bætt lífskjör sé ekki svarað. Þetta eru hópar BHM sem verið hafa í verkfalli núna í á þriðja mánuð. Þetta er mjög alvarleg staða, mjög alvarleg staða hefur skapast innan heilbrigðiskerfisins vegna þessa. Ég óska því eftir því við hæstv. forseta að hann fari að setja starfsáætlun í gang þannig að við getum farið að eiga hér samtöl í sérstökum umræðum og eins að sett verði á dagskrá beiðni okkar í Samfylkingunni um munnlega skýrslu forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaðinum þannig að við getum þá farið að reyna að taka á þessum málum með pósitífum hætti.

Mér hugnast ekki sú umræða sem verið hefur um að sett verði lög á þetta verkfall vegna þess að við erum strax farin að sjá gríðarlegar uppsagnir til dæmis meðal geislafræðinga. Fram kom fram í fréttum í dag að hjúkrunarfræðingar ætli að segja upp bara vegna frétta um að menn séu að hugleiða lagasetningu. (Forseti hringir.) Menn verða að semja og þess vegna óska (Forseti hringir.) ég eftir því að við tökum þetta mál til umræðu.