144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er afar milt orðalag að segja að hér ríki tómlæti. Menn í þessum sal hafa beinlínis talað á þann hátt að nú líti menn svo á að þeim hafi verið sýnt slíkt virðingarleysi að uppsagnir eru hafnar hjá heilbrigðisstéttum. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar menn sjá að afleiðingar stefnunnar sem þeir hafa rekið, sem er með öðrum orðum að afhenda Samtökum atvinnulífsins samningsumboðið og tala ekki við opinbera starfsmenn á meðan, sem veldur þessari niðurstöðu, þegar menn sjá framan í það eiga þeir að vera menn að meiri, koma hingað inn, viðurkenna mistök sín og hefja alvöruviðræður við þessa hópa. Það verður eingöngu með samningum sem menn ná að leiðrétta lífskjör þeirra og svara kröfum þeirra. Það gera menn ekki með hótunum um lagasetningu, vegna þess að það hefur eingöngu þau áhrif að menn hugsa sér til hreyfings og við verðum lengi að bæta þann skaða sem af því hlýst.