144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:56]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Þau frumvörp sem eru hér til umræðu í dag eru mikilvægir þættir í heildstæðri áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta á Íslandi. Ríkir almannahagsmunir krefjast þess að losun fjármagnshafta nái fram að ganga án þess að efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika sé ógnað. Markmið fyrirliggjandi áætlunar byggist á því að höftum verði lyft í áföngum án þess að jafnvægi í hagkerfinu verði raskað og án þess að ríkissjóður eða almenningur taki á sig auknar fjárhagslegar byrðar. Með höftunum sem sett voru á í kjölfar hrunsins gafst stjórnvöldum visst ráðrúm til að greina heildarvandann og móta lausnir sem tryggja farsæla niðurstöðu fyrir þjóðarbúið í samræmi við lög og alþjóðlega samninga. Það verkefni hefur nú tekið sjö ár. Við erum loks á þeim tímamótum að greiningarvinnunni er lokið og fullmótuð afnámsáætlun liggur fyrir og hefur fengið jákvæð viðbrögð. Fram undan er að hrinda áætluninni í framkvæmd og þar hefur Alþingi vissulega mikilvægu hlutverki að gegna.

Það er ákaflega mikilvægt að sátt ríki um efnahagsaðgerðir af þessari stærðargráðu og í þessari umræðu hafa þingmenn allra flokka að ég held lýst ánægju með áætlunina og lýst stuðningi við hana. Þessar góðu undirtektir eru mikilvæg forsenda farsællar niðurstöðu og þakkarverðar í sjálfu sér. Viðtökur sérfræðinga, bæði erlendra og innlendra, hafa verið jákvæðar. Hlutabréfavísitölur tóku kipp upp á við eftir að aðgerðir voru kynntar og sumir þingmenn hafa hrifist svo mjög af útfærslunni að þeir vilja hafa eignað þær síðustu ríkisstjórn og jafnvel freistast til að kenna núverandi ríkisstjórn um að hafa tafið málið óþarflega. Skotin hafa gengið á báða bóga, en slíkt karp er fremur tilgangslítið í stóra samhenginu því að allar ríkisstjórnir frá hruni hafa lagt sitt af mörkum til lausnar málinu.

Hér hafa margir þingmenn einnig getið þess að lausnin byggi fyrst og fremst á þrotlausri vinnu fjölda sérfræðinga, sérfræðinga sem greindu vandann og lögðu fram lausn. Ég vil taka undir þakkir þingmanna til þeirra allra sem lögðu sitt af mörkum í þessu mikilvæga verkefni.

Viðfangsefni okkar hér er að leiðrétta hið gríðarlega ójafnvægi sem hefur ríkt í peningakerfinu frá hruni og sá vandi er þrískiptur. Í fyrsta lagi 900 milljarðar í innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja sem ógna stöðugleika gjaldmiðilsins og gjaldeyrisforðanum og fyrirbyggja skuldaskil búanna. Í öðru lagi 300 milljarðar í kvikum aflandskrónum í eigu erlendra aðila. Í þriðja lagi er vandi innlendra aðila, sem er óþekkt stærðargráða, að hluta til uppsöfnuð þörf lífeyrissjóða og einkaaðila til að fjárfesta erlendis og dreifa áhættu í eignasöfnum.

Frumvörpin sem við ræðum núna lúta að lausn á vanda slitabúanna, en aflandskrónuvandinn mun verða leystur með öðrum leiðum í haust. Fram hefur komið að í náinni framtíð verði hægt að hefja losun hafta gagnvart innlendum aðilum í skrefum.

Vík ég nú að frumvörpum dagsins en bæði tvö snúa að vanda slitabúanna. Annað frumvarpið leggur til 39% stöðugleikaskatt á eignir þeirra slitabúa sem í lok þessa árs hafa ekki lokið nauðasamningum í samræmi við stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Hitt frumvarpið leggur til nokkrar breytingar á lagaákvæðum um nauðasamninga til að greiða fyrir framkvæmd þeirra og heimila Seðlabanka að taka við stöðugleikaframlagi frá slitabúunum.

Frumvarpið um stöðugleikaskattinn miðar að því að eyða því ójafnvægi sem stafar af innlendum eignum slitabúa. Slitabú geta komist hjá skattinum með því að leggja til stöðugleikaframlag sem uppfyllir almenn stöðugleikaskilyrði sem aftur uppfylla skilyrði um fjármálalegan stöðugleika og greiðslujöfnuð þjóðarbúsins. Hvor leiðin sem verður fyrir valinu leiðir hún til þess að ójafnvæginu er eytt og slitabúið fær lausn undan fjármagnshöftum.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að stórir kröfuhafar föllnu bankanna hafa sett fram tillögur um hvernig þeir vilja uppfylla stöðugleikaskilyrðin. Framkvæmdahópurinn telur að þær tillögur séu í samræmi við skilyrðin og leggur til við stýrinefnd að fallast á þær tillögur. Sú ákvörðun hefur hins vegar ekki verið tekin enn þá af stýrinefndinni svo ég viti til, en hlýtur að byggja á vandaðri greiningu á áhrifum af greiðslujöfnun og stöðugleika og almannahagsmunum. Ekki er ljóst hvort tillögur þessara stóru kröfuhafa muni fá tilskilinn stuðning lágmarkshluta kröfuhafa sem verður að vera 60% fyrir árslok.

Greiningardeild Arion banka hefur nýlega gert tilraun til að meta heildarfjárhæð stöðugleikaframlagsins samkvæmt umræddum tillögum og telur það liggja á bilinu 450–550 milljarðar. Seðlabankinn muni að auki fá endurgreidd gjaldeyrislán sín til Arion banka og Íslandsbanka að jafngildi 75 milljarða, sem er ekki framlag í sjálfu sér en hefur þau áhrif að styrkja gjaldeyrisforðann.

Aðeins af þessu tilefni fréttir af mögulegri sölu bankanna til útlanda, þ.e. slitabúin eiga í dag tvo stærstu banka landsins, þ.e. Arion banka og Íslandsbanka. Í fréttum höfum við heyrt af því að Glitnir íhugi að selja Íslandsbanka til erlendra aðila. Ég held að ekki sé víst að það samrýmist okkar skilyrðum um að leysa úr þessum greiðslujafnaðarvanda til framtíðar heldur fresti vandanum eða framlengi hann, vegna þess að þó að inn komi erlendur gjaldeyrir til að greiða fyrir kaupverðið á bankanum, sem er vissulega jákvætt, þá munu hinir nýju kaupendur að bankanum taka arð úr honum um ókomin ár eða áratugi, kannski tugi milljarða á ári, og þá yfir áratuginn hundruð milljarða, sem verður að koma af öðrum gjaldeyristekjum landsins, vegna þess að bankarnir skapa ekki gjaldeyristekjur. Þeir eru ekki eins og útflutningsfyrirtæki eða fyrirtæki sem framleiða verðmætar afurðir sem eru seldar í útlöndum, heldur eru þeir fyrst og fremst þjónustufyrirtæki sem starfa hér innan lands og hagnaður þeirra og arður er greiddur út í krónum, það þarf síðan að breyta honum yfir í gjaldeyri, sá gjaldeyrir verður ekki aðgengilegur fyrir þjóðina til að kaupa og flytja inn erlendan varning. Þetta mun veikja krónuna til lengdar.

Ég hef því velt fyrir mér þessum ramma sem við höfum ekki séð, hvort þennan svokallaða stöðugleikaramma, sem við höfum ekki fengið að sjá hér í þinginu enn þá en hefur væntanlega verið birtur kröfuhöfunum sem mátuðu sig inn í hann, þurfi ekki að ræða hér í þinginu líka. Er það ekki afskaplega mikilvægt að sátt sé um þennan ramma í þinginu? Þetta er svona hugleiðing af því tagi.

Ef það fer svo þrátt fyrir allt að hluti bankakerfisins, hvort sem það er 1/3 eða 2/3 þess endar í eignarhaldi erlendra aðila sem síðan þaðan í frá munu vilja taka arðinn úr landi, þá er enn mikilvægara en nokkru sinni fyrr að bregðast við þeirri fákeppni sem er hér á bankamarkaði. Ég hef engar væntingar um það að erlendur kaupandi að bankanum muni geysast hérna fram með því að lækka verðin, lækka álagninguna eða lækka færslugjöldin. Hann mun að sjálfsögðu bara reyna að hámarka gróða sinn á kostnað landsmanna allra.

Þess vegna verðum við að fara strax að huga að því með hvaða hætti við ætlum að draga úr þessari fákeppni. Ég hef stungið upp á því nokkuð oft, bæði hér á þingi held ég og almennt í fjölmiðlum, að sá banki sem við eigum, Landsbankinn, verði áfram alfarið í eigu ríkissjóðs og hafi það hlutverk að vera samfélagsbanki sem stefnir ekki að hámörkun hagnaðar á kostnað samfélagsins, heldur stefni að því að hámarka samkeppnina, bæta þjónustu og bæta sín verð. Aðrir bankar fylgja þá, hagnaður í greininni mundi minnka og þetta útflæðisvandamál á arði til útlanda mundi sömuleiðis verða mun minna. Það er alla vega eitthvað sem ég held að við þurfum að skoða mjög vandlega, hvernig við ætlum að hafa skipan bankamála okkar í framtíðinni. Mér finnst vera talað um það af mikilli léttúð að hér eigi einhverjir erlendir aðilar að geta komið inn og keypt þessa banka, tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið við það að hagnast gríðarlega á kostnað þjóðarinnar og taka síðan arðinn úr landi. Það er alvarlegt ef það fær að gerast.

Ef ég vík aftur að efnisatriðum frumvarpsins þá er lagt til að fallin fjármálafyrirtæki sem ekki hafa fengið staðfestan nauðungarsamning sem uppfyllir stöðugleikaskilyrðin fyrir næstu áramót greiði stöðugleikaskatt. Skatturinn verði 39% og leggist á heildareignir í lok þessa árs. Það er kannski ekki farið mjög djúpt í það í frumvarpinu hvers vegna þessi prósenta þarf að vera 39%, en ég held að það hljóti að vera að hún sé miðuð við það að það sé það hlutfall sem er nauðsynlegt og nægjanlegt til að eyða þeim ójöfnuði og þeirri hættu sem stafar af innlendum eignum þessara búa. Tilgangur skattsins er að draga úr þeim ójöfnuði og skapa nægilegt jafnvægi til þess að slitabúin geti farið með aðrar eignir sínar og gengið frá þeim.

Frá þessum reiknaða skatti, 39% skatti, má draga ný lán í gjaldeyri sem slitabúin veita til viðskiptabanka og sparisjóða allt að 20% af heildareignum hvers bús, en frádrátturinn getur þó ekki verið hærri en 50 milljarðar í hverju tilviki. Samtals geta þetta orðið 160 milljarðar hugsanlega í frádrátt frá skatti sem annars hefði verið 850 milljarðar, þannig að að frádráttarheimildinni fullnýttri gæti stöðugleikaskatturinn líklega mest numið um 690 milljörðum eða 685 milljörðum.

Skatturinn yrði greiddur að fullu fyrir 1. ágúst 2016 og þegar aðili hefur staðið full skil á stöðugleikaskatti er Seðlabanka gert heimilt að veita viðkomandi undanþágu frá fjármagnshöftum, enda raski það ekki fjármálalegum stöðugleika. Líklega yrði slík undanþága einnig að verða gerð í samráði við fjármálaráðherra og kynnt í Alþingi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, en þar sem um svo gríðarlega stóra ákvörðun er að ræða, sem getur ráðið úrslitum um framtíðarskipan efnahagsmála hér á landi til framtíðar, fyndist mér einnig koma sterklega til álita að Alþingi mundi ræða og staðfesta slíka undanþáguheimild. Áður en undanþága væri veitt þarf málshöfðunarfrestur að vera liðinn, en ágreiningsmál munu sæta flýtimeðferð fyrir dómstólum vegna þessa hugsanlega skatts.

Í frumvarpinu er einnig mikilvægt ákvæði sem kveður á um að ráðstöfun skatttekna skuli samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika, en ljóst er að innan þess mundi rúmast að ljúka leiðréttingu á skuldum heimilanna sem fjármögnuð hefur verið hingað til með bankaskatti og einnig er ljóst að hægt er að lækka skuld ríkissjóðs við Seðlabankann upp á um 150 milljarða og svo aðrar ríkisskuldir ef það samrýmist stöðugleikamarkmiðinu. En að mínu mati er mjög mikilvægt að stilla væntingum í hóf um það hve hratt má hleypa fjármagni út í hagkerfið, hvort sem það er gert með því að greiða upp skuldir ríkissjóðs eða með því að ráðast í önnur ríkisútgjöld eða með því að lækka skatta. Öll slík ráðstöfun þess fjármagns er skaðleg og getur valdið óstöðugleika, getur leitt til þess að hér verði annaðhvort eignabólur eða verðbólga, vegna þess að sá sem heldur núna á skuldabréfi á ríkið fær greitt í peningum og hann mun nota þá peninga til að kaupa fasteignir, önnur verðbréf eða leggjast í einhverja aðra neyslu sem mundi geta valdið verðhækkunum.

Það er því ekki svo að hægt sé að taka þessa peninga í stórum stíl, eins og mér finnst vera svona gefið í skyn í greinargerð með frumvarpinu, að ef hægt væri að lækka skuld ríkissjóðs um 640 milljarða þá lækki vaxtagreiðslur um 35 milljarða, það er ekki svo. Ég held að það væri mjög langt seilst ef okkur tækist að gera það á skömmum tíma. Ég held að við séum að tala um áratugi í því. Hagkerfið sjálft þarf að geta tekið við slíkri aukningu peningamagns. Það er ekki að ástæðulausu að hér hafi verið fjármagnshöft, það er vegna þess að þetta fé má ekki vera til. Það eru of margar krónur í kerfinu. Um leið og við leggjum þennan skatt á þurfum við að eyða að uppistöðu þessum peningum. Réttlæting skattsins er að þetta er mengunarskattur, eins og seðlabankastjóri orðaði það svo vel, við tökum ekki þessa mengun og setjum hana svo strax út í hagkerfið með því að greiða upp ríkisskuldabréf. Það er ekki hægt.

Við skulum því skoða þetta allt saman. Ég veit að margir hafa glaðst mjög mikið yfir þessu, hvað hægt væri að lækka skuldirnar mikið og fagna því mjög að hérna væri hægt að gera ýmsa hluti, en við skulum átta okkur á að þetta er ekki gjöf, þessir peningar. Þetta eru ekki raunverulegir peningar. Þetta eru peningar sem þarf að eyða, kveikja í, taka af skráningu yfir peninga í umferð. Þannig er það. Þetta munum við að sjálfsögðu ræða allt saman betur í efnahags- og viðskiptanefnd og fá sérfræðinga til að velta þessu upp og segja okkur nánar frá þessu.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan er tilgangur skattsins ekki að afla ríkissjóði tekna heldur er hann að koma í veg fyrir efnahagslegan óstöðugleika við nauðasamninga slitabúa. Hann leiðréttir þau slitabú sem ekki ná að uppfylla stöðugleikaskilyrðin og þannig geta slitabúin lokið skuldaskilum sínum án þess að valda óstöðugleika. Það er tilgangurinn.

Virðulegi forseti. Ég vík stuttlega að hinu frumvarpinu sem er einnig hér til umræðu og er mikilvægur hluti af afnámsáætlun ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið leggur til breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nánar tiltekið ákvæðum um nauðasamninga og einnig felur frumvarpið í sér eina breytingu á lögum um Seðlabanka. Markmið frumvarpsins er að einfalda þær reglur sem gilda um framkvæmd nauðasamningsumleitana fjármálafyrirtækja, til dæmis með því að heimila rafrænar atkvæðagreiðslur og það þjónar hagsmunum allra aðila að gera það ferli skilvirkara í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum fengið af því ferli hingað til. Meðal annars er lagt til að lækka tilskilið hlutfall kröfuhafa vegna atkvæðagreiðslu um nauðasamning, þannig að í stað 70% nægi 60% þeirra sem greiða atkvæði til að samþykkja. Vissulega þarf þá að koma til móts við þarfir þessara aðila á einhvern annan hátt og ég hygg að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að fundnar séu leiðir til þess að sú skerðing verði ekki metin sem skerðing á réttindum smærri kröfuhafa.

Frumvarpið heimilar líka slitastjórn að afhenda Seðlabanka stöðugleikaframlögin án þess að endurgjald komið fyrir og heimila Seðlabanka að taka við slíkum framlögum og fara með þau. Ég vek athygli á því aftur að þessi framlög, sem geta numið hundruðum milljarða, geta af nánast mjög litlu leyti farið í umferð inn í hagkerfið. Þau geta ekki runnið til þess að lækka skuldir ríkissjóðs nema að sáralitlu leyti. Að sjálfsögðu er hægt að nota þau til að lækka innanbúðarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann upp á 150 milljarða, það er svona bókhaldsleg aðgerð, en þau geta ekki runnið í stórum stíl til þess að greiða upp ríkisskuldir.

Hugsanlegt er að meðal þeirra eigna sem yrðu afhentar Seðlabankanum í þessu skyni yrðu alls konar ófullnustaðar eignir, kröfur sem eru í ágreiningi, kröfur á innlenda aðila sem hafa ekki runnið sitt skeið og eru ekki markaðskröfur. Mjög mikilvægt er að þær kröfur verði ekki geymdar á efnahagsreikningi Seðlabankans heldur í sérstöku eignarhaldsfélagi sem er ótengt almennum rekstri Seðlabankans og verði meðhöndlaðar sérstaklega. Best væri að sjálfsögðu að slíkar kröfur væru varslaðar hjá bönkum sem eru í viðskiptum við slík fyrirtæki og horfa til lengri tíma í samskiptum sínum við skuldara.

Að mörgu er að hyggja með bæði þessi frumvörp. Efnahags- og viðskiptanefnd mun að lokinni þessari umræðu senda málið til umsagnar og hefja vinnslu þess án tafar og kalla til sín sérfræðinga. Sú umræða sem hér hefur átt sér stað við 1. umr. hefur verið mjög upplýsandi og málefnaleg. Sú umræða ásamt þeim ítarlegu greinargerðum sem fylgja frumvörpunum er gagnlegt veganesti fyrir umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um þessi frumvörp.