144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Frosta Sigurjónsson, formann efnahags- og viðskiptanefndar, en það sú nefnd sem málið gengur til: Hvað hyggst hann gera varðandi vinnslu málsins hjá nefndinni? Er hann ekki sammála mér um mikilvægi þess að þeir 500 milljarðar, eða í kringum 500 milljarðar, eins og fram kemur í frumvarpinu, sem enda munu á sérstökum innlánsreikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum, hlaupareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum og hægt er að ráðstafa af löggjafanum í fjárlögum, þrátt fyrir falleg orð hér um efnahagslegan stöðugleika — það er það sem ég hef fengið staðfest. Þurfum þá ekki að fá það endanlega staðfest í nefndinni hvar mörkin eru? Er hægt að ráðstafa þessu fé? Þarf það ekki að vera algjörlega tryggt hvað gert verður ef ekki verður farin sú leið að þessir peningar séu bara brenndir, sem mér þykir ólíklegt, að þeir séu bara settir í tætarana, þurrkaðir út? Annars liggja þeir þarna inni og verða gríðarleg freisting fyrir stjórnmálamenn að ráðstafa þeim í fjárlögum. Þegar aðrar þjóðir hafa setið uppi með svona hvalreka í formi mikilla nýskapaðra verðmæta hafa þær sett peningana í læsta sjóði. Þetta eru iðulega olíuríki, en önnur ríki hafa líka gert þetta. Það er þekkt út um allan heim að slíkur hvalreki í formi peninga er læstur inni svo hann blási ekki út hagkerfið og valdi óstöðugleika, sem er í sjálfu sér gríðarlega slæmt. Í okkar tilfelli er líka önnur mikilvæg ástæða, það er ef stjórnmálamenn fara að teygja sig í þetta 500 milljarða kökubox í Seðlabankanum og eyða þeim peningum geta þeir ekki bara valdið efnahagslegum óstöðugleika, heldur geta (Forseti hringir.) kröfuhafarnir sagt: Heyrðu, þetta var bara eignaupptaka hjá okkur. Þá er lagaleg staða okkar orðin slæm og af þessum tveimur ástæðum (Forseti hringir.) er mikilvægt að tryggja að það gerist ekki. Hvað finnst hæstv. formanni nefndarinnar um þetta mál?