144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Sama hvort menn líta á þetta sem góðan hvalreka eða slæman hvalreka, hvalreki getur verið slæmur ef hvalurinn úldnar á ströndinni og springur o.s.frv., hann getur skemmt í kringum sig.

Ég heyri að hæstv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sem málið gengur til, vill ekki að stjórnmálamenn geti sótt í þennan sjóð. Hann talaði um það sem freistingu, að hún væri þarna alla daga, og hann vill helst að þessum peningum verði eytt þannig að stjórnmálamenn geti ekki notað þá. Það er náttúrlega ein leið sem mundi algjörlega koma í veg fyrir að hægt væri að gera nota peningana. En ef sú leið verður ekki farin, er hæstv. formaður nefndarinnar ekki opinn fyrir því að komið verði frekar í veg fyrir að stjórnmálamenn freistist ekki að fara í þessa peningaprentun? Eins og fram kemur alveg skýrt í 1. gr. í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áætlaðri meðferð á ráðstöfun fjármunanna, þó að þurfi að vera efnahagslegt, það þarf bara samræmi við Seðlabankann. Seðlabankinn þarf ekkert gútera neitt. Það eru stjórnmálamennirnir sem ráða þessum peningum eftir að þeir eru komnir inn í Seðlabankann á innlánsreikning ríkissjóðs. Það er það sem ég bendi á, þ.e. mikilvægi þess að ramma það inn. Er (Forseti hringir.) hv. formaður nefndarinnar ekki sammála við því?