144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:23]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar.

Varðandi skattalækkanir sem hafa verið ræddar getur vel verið að það sé svigrúm til skattalækkana alveg óháð því sem hér er að gerast, alveg óháð því sem við erum að tala um, ég vil ekki rugla því endilega saman. Þrátt fyrir allt gengur vel í efnahagslífi á Íslandi. Það er hagvöxtur. Það eru þá möguleikar á svigrúmi til þess að lækka skatta, hugsanlega. Ég vil ekki blanda þessu tvennu saman, enda taldi ég ekki að þarna væru gríðarlega skattalækkanir á ferð eins og gætu orðið ef við værum að tala um það. Ég held að það hafi verið allt innan skynsamlegra marka, vonandi.

Það sem við erum að tala um hérna er tvennt. Ég þakka spurninguna varðandi það að selja erlendum aðilum bankana. Það er ekkert ólíkt því að selja innlendum aðila, báðir aðilar munu reyna að hámarka hagnað sinn og gróða af þeirri fjárfestingu. Það er eðlilegt. Munurinn er sá að erlendur aðili mun vilja breyta henni í gjaldeyri um ókomin ár, tugi milljarða á ári. En ég get ekki til þess hugsað að við eigum að fara að greiða árlega 30, 40, 50 milljarða á ári í hagnað til útlanda af starfsemi sem skapar ekki gjaldeyri. Það er ekki neitt annað en að taka frá útflutningsgreinunum, sem skapa gjaldeyri svo að við getum flutt inn vörur. Ef við tökum þann gjaldeyri til þess að greiða arð til útlanda af einhverri starfsemi sem er bara innanlandsstarfsemi, innlend þjónustustarfsemi, sem skapar engan gjaldeyri, mér fyndist það mjög sorgleg mistök.

Varðandi hitt, já, það er rétt, megnið af þessum peningum, megnið af þessum hundruðum milljarða sem hérna eru, er ekki hvalreki heldur peningar sem þarf að strika út og það er tilefni þeirrar skattlagningar sem við erum að tala um. Það er alveg rétt, það má hugsanlega lækka þetta bréf, netta það út, byrja á því, það er ágætisútstrikunaraðferð, en í sjálfu sér skuldar Seðlabankinn og ríkið hvort öðru peninga, það er allt innan búðar. Það væri bara eins og ef ég skuldaði sjálfum mér smápening og væri með hann á tveimur T-reikningum. Ég get að sjálfsögðu nettað það út án þess að það valdi einhverri ólgu í samfélaginu.

Ég held að við verðum að fara mjög gætilega í því hvernig við tölum um það og hvernig við ætlum að beita þessu fjármagni. Þetta er skattur sem snýr að því að laga óstöðugleika, hreinsa upp (Forseti hringir.) mengandi krónur.