144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:27]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að staðfesta það að ég held að ekki sé hægt að búast við því að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki um tugi milljarða, 40 milljarða, eða 35 milljarða eins og stendur í greinargerð með frumvarpinu. Ég dreg í efa að okkur sé óhætt að hleypa svo miklu fjármagni í umferð sem þyrfti til að lækka skuldir ríkisins í svo stórum stíl, rúma 600 milljarða eins og þar er talað um. Ég held að það sé óraunhæft. Mér þykir það svolítið leiðinlegt að sjá slíka greiningu vegna þess að hún er ekki til þess fallin að gefa okkur skýra mynd af því sem er að gerast hérna. Það er náttúrlega hlutverk okkar í nefndinni að fá skýringar á því hvers vegna þetta er sett svona fram. Það getur ekki verið rétt.

Varðandi hina spurninguna um bankana, já, ég held að það sé alveg skýrt að það getur kannski ekki uppfyllt stöðugleikaskilyrði, kannski þurfum við í þinginu að fá að sjá hver þessi rammi er og spyrja spurninga um hann. (Gripið fram í: Við þurfum að fá að sjá það.) Við þurfum að fá að sjá það áður en að einhverju er gengið. Ég held að sú vinna sé bara eftir. Ég er alveg viss um að við hér í þinginu fáum (Forseti hringir.) að tjá okkur um það.