144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fagna henni. Ég var mjög ánægður með að hv. þingmaður leggur hér áherslu á hluti sem ýmsir aðrir og þar á meðal og ekki síst flokksbræður hans eða flokkssystkin hafa kannski ekki talað mikið um. Það er í fyrsta lagi að tilgangur þessarar aðgerðar er ekki að afla ríkissjóði tekna heldur að tryggja að þessi aðgerð geti orðið hlutlaus gagnvart gjaldeyrisjöfnuði og greiðslujöfnuði og svo í öðru lagi að nálgast þetta ekki endilega sem hvalreka, heldur öðrum þræði og í raun og veru ekkert síður sem vandamál, sem mengun sem þurfi að takast á við. Það leiðir náttúrlega af því að hér er allt of mikið peningamagn í umferð. Við erum enn að þessu leytinu með útblásið hagkerfi frá þensluárunum fyrir hrun þegar peningamagn í umferð þrefaldaðist og það hefur ekki unnist niður. En drjúgur hluti þessarar krónustöðu hefur legið óvirkur í hagkerfinu undanfarin ár. Spurningin snýst um það að missa hann ekki í umferð. Ég held að allir góðir menn og ábyrgir þurfi að standa vel saman um það að halda aftur af þeim öflum sem hafa æst sig upp í það á undanförnum missirum að nú sé þarna að opnast aðgangur að digrum sjóðum sem væri hægt að spreða út.

Það er afar mikilvægt sem hér kom fram að villandi er að tala um það að á örfáum missirum muni vaxtakostnaður ríkissjóðs geta lækkað um 35 milljarða kr. (Gripið fram í.) Já, vegna þess að til þess þyrfti að vera hægt að borga upp skuldir sem því nemur, um það bil „halvera“ skuldir ríkisins. Það yrði ekki hægt án verulegrar þenslu. Vandinn er sá til dæmis að það sem manni dytti næst í hug á eftir skuldabréfinu í Seðlabankanum og þá því sem er ófjármagnað af skuldaniðurfærslunni væri að borga inn á framtíðarlífeyrisskuldbindingar ríkisins, en vandinn er sá að þá fengi lífeyrissjóðurinn þá peninga og færi að ávaxta þá og þeir komnir í umferð.

Ég vil þó aðeins nefna möguleika í því sambandi. Hann er sá að þetta yrði spilað saman við (Forseti hringir.) heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í útlöndum, að hugsanlega gæti ríkið greitt eitthvað inn á lífeyrisskuldbindingar í samræmi við það sem viðkomandi lífeyrissjóður (Forseti hringir.) opinberra starfsmanna væri skuldbundinn til að fjárfesta þá erlendis.