144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:31]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skynjaði nú ekki beint spurningu í þessu andsvari en kannski frekar undirtektir um að hér erum við ekki að tala um hvalreka heldur vandamál sem þarf að eyða. Ég fagna því sameiginlegum skilningi okkar hv. þingmanns í þessu máli. Það er rétt að drjúgur hluti þessara krónueigna, innlendu eigna, hefur legið í kerfinu óvirkur og verður að vera það áfram og besta leiðin til að tryggja það væri að sjálfsögðu að Seðlabankinn tæki að sér að taka þetta úr umferð varanlega með því að láta það hverfa af sínum bókum inn í þessa nettunarfærslu sem vel er hægt að gera og er á hans valdi að gera, því að alveg eins og Seðlabankinn getur skapað peninga þá getur hann líka eytt þeim með sömu aðferð aftur á bak.

Ég held að rétt sé að yfir nægilega langt árabil, ég veit ekki hvað það er langt, hvort það eru fimm eða 15 ár, þá er hugsanlegt að koma þessu fé í umferð með því að lækka einhverjar skuldir, setja þær í umferð þegar hagkerfið stækkar og getur tekið við því, eins og ég tók fram hérna áðan, en það er sannarlega ekki hægt að gera ráð fyrir því á næsta ári.