144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einmitt verið að hugsa kannski svolítið á svipuðum nótum, hvort ein leið okkar til að ná niður peningamagninu væri ekki bara einfaldlega að gera það agað með langtímastefnu í huga, að láta þetta ganga upp á móti vexti hagkerfisins á tiltölulega löngu árabili. Það er auðvitað hægt að tæta seðlana, tæta peningana, bara einfaldlega að gera það. Ekki skal standa á mér að skoða það, að fara að minnsta kosti blandaða leið í þeim efnum, að hreinlega verði ákveðið að einhver hluti þess verði beint tekinn úr umferð. Svo gætu auðvitað verið vissir möguleikar til að vinna á þessu að hluta til með því, eftir því sem gjaldeyrisjöfnuðurinn leyfði, að senda eitthvað af þessu fé í ávöxtun erlendis. Það gæti verið ágætt til lengri framtíðar litið en þá þurfum við auðvitað að afla þess gjaldeyris. Með því að láta hann ekki koma inn og til eyðslu hér heldur grípa hann og endurfjárfesta hann erlendis þá gæti hugsanlega samspil (Forseti hringir.) uppkaupa Seðlabankans á gjaldeyri og fjárfestingar lífeyrissjóðanna verið einhver lausn í þessum efnum.