144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér hafa margir sem eru að fylgjast með störfum þingsins velt vöngum yfir því hvernig á því standi að þingfundur hafi fyrst verið boðaður hér kl. 10 en sé fyrst að hefjast núna kl. 13.30. Ég kem hér upp til að skýra það. Það er af því að kl. 9 í morgun vorum við formenn flokkanna boðuð á fund þar sem okkur var kynnt það frumvarp sem hér liggur frammi. Ætlun yfirstjórnar þingsins var að við færum svo að ræða þetta frumvarp sem enginn af hv. þingmönnum, a.m.k. stjórnarandstöðunnar, hafði séð kl. 9 í morgun og fékk ekki að sjá fyrr en því var dreift hér í þinginu rétt fyrir kl. 10.

Herra forseti. Ég geri alvarlegar athugasemdir við svona vinnubrögð þegar við erum að ræða mjög stórt mál sem lýtur að stjórnarskrárbundnum rétti fólks til að berjast fyrir kjörum sínum, að hv. þingmönnum séu ætlaðar örfáar mínútur til að kynna sér mál. En um leið vil ég þakka fyrir það að fundinum var frestað. Annað væri nú ekki hægt ef við ætlum í alvörunni að reyna að vanda okkur hér við lagasetningu að einhverju leyti. Ég skil raunar ekki hvernig nokkrum datt þetta fyrirkomulag í hug. Hér er sem sagt skýringin komin á því af hverju þessi þingfundur hefur frestast.