144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Sú staða sem upp er komin í þinginu og í okkar samfélagi er skipbrot stjórnunarstíls sem felst í því að tala helst ekki saman. Svo vikum skipti var það málflutningur minni hlutans í þinginu að menn hlytu, á þeim örlagatímum sem við vorum að sigla inn í, að setja átakamál til hliðar og einbeita sér að því sem virtist blasa við öllum nema ríkisstjórninni, ófremdarástandi á vinnumarkaði. Okkar samfélag byggir á samtali, á samfélagssáttmála, stjórnarskrá, lögum sem eru afrakstur samtals á milli fólks með ólíkar skoðanir. Og fjarvera hæstv. forsætisráðherra héðan úr þessum sal núna og yfirleitt þegar menn ræða hér um stjórnunarstíl ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) er hróplegur vitnisburður um vangetu hæstv. forsætisráðherra til þess að eiga í því samtali.