144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Já, það er alveg með ólíkindum hvernig þessari ríkisstjórn tekst að klúðra hér hverju málinu á fætur öðru. Hér hefur verið rætt um það samráð sem ríkisstjórnin hefði auðvitað átt að hafa við stjórnarandstöðuna til að freista þess að ná meiri sátt um það frumvarp sem hér er, ef það hefði verið hægt. Ég segi til dæmis fyrir mitt leyti nú þegar ég er loksins búinn að sjá þetta frumvarp, að í því samráði hefði til dæmis komið fram tillaga um að væntanlegum gerðardómi, ef hann þyrfti að taka til starfa, bæri þá að taka mið af þeim samningum sem ríkisstjórnin hefur gert. Nefni ég þá læknasamninga og kennarasamninga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Af hverju eru þeir ekki hér inni? Hér er nefnilega dagsetning sett inn í frumvarpið til þess að þeir samningar komi ekki til álita hjá gerðardómi.

Virðulegi forseti. Ef það samtal hefði átt sér stað frá hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra, oddvitum ríkisstjórnarinnar er ég viss um að það hefði komið fram. Þess vegna boða ég breytingu við þetta strax (Forseti hringir.) um að þessir samningar skuli koma þarna inn í ef til gerðardóms kemur. Hvers vegna eru þeir ekki inni, virðulegir ráðherrar?