144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Aftur ætlar þessi ríkisstjórn að setja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu. Við vorum með þrenn hallalaus fjárlög upp á 3,4 milljarða. Samkvæmt forsvarsmönnum allra heilbrigðisstofnana á landinu sem ég hafði samband við við gerð breytingartillögu spurði ég hvað vantaði til að geta veitt nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Það vantaði 3 milljarða. Við vorum með hallalaus fjárlög upp á 3,5 milljarða. Það er ekki forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar að setja heilbrigðiskerfið í forgang. Þetta er það sem landsmenn vilja. Við gerðum skoðanakönnun, Capacent Gallup gerði skoðanakönnun fyrir Pírata í nóvember. 90% landsmanna vilja fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í forgang þegar þeir eru spurðir að því hvernig þeir vilja að skattfé þeirra sé varið. Þessi ríkisstjórn getur stöðvað þetta verkfall án þess að setja lög sem setur fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í hættu. Hún getur gert það með því að forgangsraða skattfé í heilbrigðiskerfið, nákvæmlega eins og landsmenn vilja, óháð flokkum, óháð kjördæmum, óháð aldri og efnahag. (Forseti hringir.) Þetta er grafalvarlegt.