144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er gaman að sjá hve stjórnarandstaðan nýtur þess núna að vera í sviðsljósinu. Ekki naut núverandi stjórnarandstaða þess að vera í sviðsljósinu þegar hún var hér á síðasta kjörtímabili að (JÞÓ: Æi, kommon!) (KaJúl: Hvað er að …?) leiða stjórn landsins. Hvernig var það? (JÞÓ: Á síðasta kjörtímabili …) Hvernig var það þá? (Gripið fram í.) Hvernig var það þegar (Forseti hringir.) núverandi stjórnarandstaða setti lög á flugvirkja? Hvernig var umræðan hérna þá? Var það hroki og hræsni sem þá var um að ræða? Ekki var hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þá hér í ræðustól að tala um hroka og vanvirðingu þegar hún studdi það með jái (Gripið fram í.) að setja lög á flugvirkja. (Gripið fram í.) Það skiptir greinilega máli hver það er og hverjir eru við borðið. Það er alveg augljóst. Og svo tala menn um kjarkleysi hér. Hver er það sem þorði að standa uppi í hárinu á kröfuhöfum? Ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson. [Háreysti í þingsal.] Hver er það sem þorði að taka á Icesave? [Háreysti í þingsal.] Ekki hv. þm. (Forseti hringir.) Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Og hver þorði að lækka lán heimilanna? Ekki Samfylkingin og ekki Vinstri græn. Hvar er kjarkurinn? (Forseti hringir.) Hræsni stjórnarandstöðunnar er það sem stendur upp úr og hefur alltaf gert. [Háreysti í þingsal.] (SJS: Velkominn heim frá Finnlandi …)