144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[13:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var ekki í síðustu ríkisstjórn. Ég var ekki á þingi á síðasta kjörtímabili. Hæstv. ráðherra getur ekki notað það sem rök að stjórnarandstaðan hafi verið svona eða hinsegin á síðasta kjörtímabili. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar þurfa að geta réttlætt sínar eigin gjörðir á sínum eigin forsendum án þess að nota rök eins og þau að einhver annar hafi verið svo vondur á einhverjum fyrri tímum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Það skiptir engu máli, virðulegi forseti. Þessi ræða hæstv. ráðherra gerði voða lítið til að sannfæra mig vegna þess að eins og ég veit og hæstv. ráðherra veit þá var ég var ekkert hérna á síðasta kjörtímabili, hvorki í ríkisstjórn né á þingi. (Utanrrh.: En þú tekur þátt í þessu.) Sú hugmynd sem hér liggur fyrir mun ekki laga vandann. Það sem þetta mun gera er að þetta mun valda fjöldauppsögnum og dýpka vandann til lengri tíma. Þetta er stórhættulegt skref sem við tökum hér. Ég mótmæli því fullkomlega að við setjum þetta mál á dagskrá, virðulegi forseti.