144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt að hv. þingmenn, sama hvar í flokki þeir standa, spyrji sig í hvaða farveg kjaramál í þessu landi eru komin. Þetta er fjórða frumvarpið sem þessi ríkisstjórn leggur fram, kjörtímabilið ekki hálfnað, um lagasetningu á verkföll. Samt erum við komin á þann stað að hér eru horfur góðar. Við erum á uppbyggingarskeiði og samt virðist þetta vera fyrsta tæki stjórnvalda til að beita þegar um er að ræða kjaradeilur. Það hlýtur að vekja okkur öll til umhugsunar um það hvernig við viljum sjá vinnumarkaðsmál hér þróast. Þarf ekki einmitt að breyta þeim með langtímasamtali og gagnkvæmri virðingu á milli aðila? Höldum við (Forseti hringir.) að þessi framkvæmd, þessi aðgerð, verði til þess að auka ró á vinnumarkaði og skapa betra langtímaástand? Það held ég ekki.