144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er óskiljanlegt að mál sem þetta sé á dagskrá sama ár og gefin var út yfirlýsing í kjölfar samninga við lækna um að heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og annars staðar á Norðurlöndunum að teknu tilliti til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti. Var þessi yfirlýsing marklaus? Á þessi yfirlýsing ekki við um kvennastéttirnar sem halda heilbrigðiskerfinu gangandi? Þær eru þarna úti núna að mótmæla. Ég ráðlegg hæstv. forseta að gera hlé á þingfundi og gefa þingmönnum færi á að fara og tala við þær og heyra hvað þeim finnst um svik sem þessi. Það má sem sagt lofa læknum öllu fögru þegar launin þeirra eru hækkuð, síðan á að setja gerðardóm á (Forseti hringir.) kvennastéttirnar þar sem ekki má taka tillit til samningsins við lækna.

Herra forseti. Ég legg til að það verði gert hlé á þingfundi og þingmönnum gefið færi á að átta sig á raunveruleikanum.