144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og hér hefur verið rakið getum við búist við því að hér muni enn fleira hjúkrunarfólk og annað heilbrigðisstarfsfólk flytja úr landi, í enn meiri mæli en orðið er. Við stöndum frammi fyrir því að mennta hér frábært fólk til starfa erlendis.

Mér finnst það mjög sorglegt sérstaklega í ljósi þess að í næstu viku er ætlunin að halda hér þing vegna 100 ára kosningarréttarafmælis kvenna, þann 19. júní, og hér erum við fyrst og fremst að fjalla um kvennastéttir. Þær eru undir í þeirri lagasetningu sem hér á að fara fram. Það er grafalvarlegt mál og lýsir sér í viðhorfi ríkisstjórnarinnar annars vegar gagnvart læknum, sem eru í meiri hluta karlar, og svo í heilbrigðisstéttunum hinum, sem eru að meiri hluta konur. (Gripið fram í.) Það endurspeglast fyrst og fremst í því að það þarf að hafa stöðugleika í efnahagsmálum að leiðarljósi, eins og fram kemur í lagafrumvarpinu, núna þegar (Forseti hringir.) semja á við kvennastéttirnar, en þess gerðist ekki endilega þörf (Forseti hringir.) þegar læknasamningarnir voru samþykktir.