144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar, fólk lætur eins og hér sé eitthvað nýtt að gerast sem hafi aldrei gerst áður íslensku samfélagi. Hér hefur verið reynt í langan tíma að ná sáttum í þessari miklu deilu og byggja á þeim efnahagslega stöðugleika sem við erum að fara í.

Það er áhugavert að rifja upp mál sem hæstv. utanríkisráðherra kom inn á áðan og ég hef verið að dunda mér við það. Hv. þm. Róbert Marshall hefur tjáð sig mjög í þessari umræðu. Í frétt segir frá 2010 þegar hann samþykkti verkfall á flugvirkja segir:

„Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, segir verkfallið bitna á öllum stéttum og að efnahagslífið þoli þau margfeldisáhrif sem af því hljótast illa.“

Þarna var ekkert að því að setja verkfall á einhverjar stéttir. (Gripið fram í.) Það var bara í góðu lagi.

Svo kemur fólk hingað háheilagt út af þessari deilu þar sem miklir hagsmunir eru undir, þar sem sjúklingar eiga undir, þar sem ástandið á (Forseti hringir.) spítölum landsins er orðið óþolandi og við getum ekki af ábyrgð horft upp á þetta lengur. Þetta sama fólk hótar því að sjá til þess að þetta mál fari ekki á dagskrá þingsins í dag. Verði þeim að góðu. Það er þá á þeirra ábyrgð að heilbrigðiskerfið verði áfram lamað. (Gripið fram í: Ykkar ábyrgð.) (Gripið fram í.)