144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

Afbrigði um dagskrármál.

[14:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér er að sjálfsögðu skapi næst að greiða atkvæði gegn því að þetta mál komi á dagskrá, en það mun því miður aðeins fresta því í tvo eða í mesta lagi fimm sólarhringa að svo verði og skaðinn er skeður með því að frumvarpið er komið fram, vegna þess að frumvarpið er flutt af ríkisstjórninni eða fyrir hönd hennar. Þetta er ekki deila þriðju aðila. Ríkisstjórnin er (Gripið fram í.) annar deiluaðilinn. (Gripið fram í: Skaðinn er skeður) Skaðinn er skeður, já, gagnvart samningsrétti og stjórnarskrárvörðum lýðréttindum í þessu landi, hæstv. forsætisráðherra. (Fjmrh.: Hvað með sjúklingana?) Það eru líka hlutir sem ég hélt [Kliður í þingsal.] að ráðamenn ættu að taka alvarlega. Og ætlarðu að fara að reyna að bera það upp á okkur að okkur sé skítsama um sjúklinga, hæstv. fjármálaráðherra? (Gripið fram í.) Er það innleggið? Nei, menn skulu bara tala skýrt. (PJP: … orðbragð.) Ef hæstv. fjármálaráðherra vill leggja það inn í umræðuna að þeim sem leyfa sér að andmæla (Gripið fram í.) ríkisstjórninni sé skítsama um sjúklinga þá bið ég hann að segja það en ekki gjamma það hérna fram í eins og lítill skólastrákur. (KaJúl: Heyr, heyr.)

Vandinn er sá að skaðinn er skeður. Þegar ríkisstjórnin, sem er annar deiluaðilinn, leggur fram frumvarp um að taka samningsréttinn af mönnum þá er málið búið. (Gripið fram í.) Ef þetta væri deila tveggja aðila (Forseti hringir.) úti í samfélaginu þá gæti öðru máli gegnt um það. Það sem hér hefur gerst er að ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) tekið samnings- og verkfallsrétt af opinberum (Forseti hringir.) starfsmönnum og afhent hann Samtökum atvinnulífsins. (Forseti hringir.) Það er það sem hefur í reynd gerst á vinnumarkaði og á svo að botna hér.